Lífið

Meira að segja Jesús hatar KR

Magnús Valur Böðvarsson í stuttermabolnum með hinni umdeildu áletrun. Fréttablaðið/Rósa
Magnús Valur Böðvarsson í stuttermabolnum með hinni umdeildu áletrun. Fréttablaðið/Rósa

Nýr stuttermabolur verslunarinnar Dogma með áletruninni Jesús hatar KR hefur vakið mikla athygli að undanförnu. Bolurinn fór í sölu í síðustu viku og hefur runnið út eins og heitar lummur.

„Við hötum svo sem ekkert KR. Hugmyndin er fengin frá erlendum bol, Jesus Hates the Yankees," segir Magnús Már Nilsson, stuðningsmaður Fylkis og einn af eigendum Dogma.

„Okkar mat er það að KR er sennilega mest hataða liðið á Íslandi, sem er ákveðið hrós. Það þýðir að þetta er stærsta félagið á Íslandi, enda hatar enginn Völsung. Þeir eiga bara að vera ánægðir með þennan bol," segir hann og útilokar ekki að klæðast bolnum þegar KR-ingar taka á móti Fylkismönnum í sumar.

Nafni hans, HK-ingurinn Magnús Valur Böðvarsson sem starfar hjá Dogma í Kringlunni, hefur þegar klæðst bolnum á KR-vellinum. Það var í jafnteflisleik gegn Keflavík á þriðjudagskvöld. Hann viðurkennir að hafa fengið misjöfn viðbrögð við uppátækinu.

„Sumir gáfu mér illt auga en aðrir bara brostu. Ég held að flestir taki þessu sem gríni," segir Magnús Valur, sem klæðist bolnum einnig í vinnunni. Þar hefur hann þegar fengið skömm í hattinn. „Það var ein kona sem kom hérna sem fannst þetta vera guðlast."

Honum finnst bolurinn ekki vera of grófur. „Ef maður myndi ekki koma með boli sem móðga þá væru engir bolir til sölu hérna." - fb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.