Innlent

Hörður: Tengist ekki samningum Seðlabankans

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að viljayfirlýsing sem fyrirtækið undirritaði ásamt China International Water & Electric Corporation og EXIM bankans kínverska tengist ekki samningnum sem Seðlabanki Íslands gerði í morgun. Unnnið hefur verið að viljayfirlýsingunni við Kínverjana í hálft annað ár, að sögn Harðar.

China International Water & Electric Corporation (CWE) sem er í eigu kínverska ríkisins, er eitt stærsta verktakafyrirtæki í Kína, en fyrirtækið hefur í hyggju að bjóða í framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun.

Viljayfirlýsing er eins og aðrar viljayfirlýsingar ekki skuldbindandi, en með henni lýsir CWE áhuga á því að bjóða í framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun og Landsvirkjun lýsir yfir áhuga á því að fá tilboð frá fyrirtækinu. Þá lýsir Exim Bank yfir áhuga á að fjármagna hluta verksamninga sem CWE kann að vinna fyrir Landsvirkjun að undangengnu útboði.

„Fyrirtækin eru að lýsa því yfir að þau hafi áhuga á samstarfi og að þau hafi áhuga á að bjóða í þau verkefni sem eru framundan hjá okkur," segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. En tengist viljayfirlýsingin samningnum sem Seðlabankinn gerði í morgun? „Nei, það er ekkert samhengi þar á milli. Þetta tengist bara á þann hátt að þetta tengist heimsókn þessarar háttsettu sendinefndar frá Kína sem er hér á landi til þess að skrifa undir viljayfirlýsingu (við Landsvirkjun innsk.blm) og samninga við Seðlabankann, en samningarnir eru algjörlega aðskildir," segir Hörður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×