Erlent

Segir Gerry Adams hafa fyrirskipað morð

Óli Tynes skrifar
Gerry Adams, þingmaður og forseti Sinn Fein.
Gerry Adams, þingmaður og forseti Sinn Fein.

Fyrrverandi foringi í Írska lýðveldishernum segir að Gerry Adams þingmaður og forseti stjórnmálaflokksins Sinn Fein hafi fyrirskipað morðið á ekkju og tíu barna móður sem var skotin til bana í desember árið 1972.

Sinn Fein er annars stærsti stjórnmálaflokkurinn á Norður-Írska þinginu. Gerry Adams hefur ávallt neitað því að hann hafi verið liðsmaður í Írska lýðveldishersins.

Hann hefur þó á undangegnum áratugum verið sakaður um að ljúga því og bera ábyrgð á mörgum morðum.

Nú er að koma út bók þar sem vitnað er í Brendan Hughes fyrrverandi foringja í Írska lýðveldishernum.

Tilvitnarnirnar í Hughes eru úr viðtölum sem hann veitti bandarískum blaðamanni á árunum 2001-2002 með því skilyrði að ummæli hans yrðu ekki birt fyrr en að honum látnum. Hughes lést árið 2008.

Í viðtölunum fullyrðir Hughes að Gerry Adams og enginn annar hafi gefið fyrirskipunina um að myrða Jean McColville. Hún var grunuð um njósnir fyrir Breta og Hughes segir að það hafi hún verið án nokkurs vafa.

Eftir að McOlville var skotin til bana var hún jörðuð skammt innan við landamæri Írska lýðveldisins. Lík hennar fannst ekki fyrr en árið 2002. Þá loks viðurkenndi IRA morðið og vísaði á líkið.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×