Erlent

Verða að sanna að þeir séu öryrkjar

Óli Tynes skrifar

Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi hafa ákveðið að láta öryrkja sanna að þeir séu ekki færir um að vinna.

Tilraunaverkefni hefur staðið yfir á Stór-Manchestersvæðinu þar sem umsækjendur um örorkustyrk hafa þurft að gangast undir próf sem felur í sér margvísleg atriði.

Allt frá því að ganga upp stiga til þess að taka hluti upp af gólfinu.

Sjötíu prósent umsækjendanna voru úrskurðaðir vinnufærir. Nú er ætlunin að snúa sér að þeim sem þegar eru á bótum. Þeir verða sendir til heimilislæknis síns þar sem þeir verða látnir gangast undir prófið.

Tilgangurinn er sagður sá að fá fólk af bótum og út á vinnumarkaðinn. Manchester var valin til tilraunaverkefnisins þar sem þar eru hlutfallslega fleiri á bótum en nokkursstaðar annarsstaðar í landinu.

Einn af hverjum tíu á vinnumarkaði er á bótum. Ýmsir bótaþegar eru þó undanteknir þessu verkefni til dæmis krabbameinssjúklingar og MS sjúklingar.

Samtök sem vinna að samfélagsmálum hafa gagnrýnt þessi próf harðlega og segja að í mörgum tilfellum sé verið að svíkja fólk sem sé mikið veikt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×