Skoðun

Hlustum á raddir innflytjenda

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar skrifar

Reykjavíkurborg hefur þróast hratt í átt til fjölmenningarsamfélags á undan­förnum árum. Í upphafi árs 2010 voru borgar­búar 118.326 talsins og af þeim voru 8,1 prósent, um 9.555, með erlent ríkisfang. Þá eru ekki taldir með þeir innflytjendur sem fengið hafa íslenskan ríkisborgararétt.

Laugardaginn 6. nóvember fer fram fyrsta fjölmenningarþingið sem haldið er af Reykjavíkurborg. Þar mun fólk af erlendum uppruna, búsett í Reykjavík, fá tækifæri til að koma skoðunum sínum um þjónustu borgarinnar á framfæri. Þingið fer fram í Borgarleikhúsinu frá kl. 10 til 14. Markmiðið með þinginu er að bæta þjónustu Reykjavíkurborgar við innflytjendur en með fjölbreytilegri mannlífsflóru liggur í hlutarins eðli að krafan um þjónustu tekur breytingum. Með fjölmenningar­þinginu vonast borgin til að geta mætt þörfum nýrra íbúa borgarinnar betur með því að hlusta á þær raddir sem þar koma fram.

Það er stjórn borgarinnar mikilvægt að heyra raddir íbúa til að geta mótað þjónustuna með því að taka tillit til mismunandi þarfa þeirra. Krafan um þjónustu getur verið ólík frá fólki með mismunandi menningarbakgrunn en markmið borgarinnar er að allir borgarbúar njóti sem bestrar þjónustu burt séð frá uppruna þeirra.

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að tryggt skuli að innflytjendur og fólk af erlendum uppruna eigi greiðan aðgang að þjónustu borgarinnar. Þá skal tekið mið af þörfum innflytjenda þegar þjónusta á vegum borgarinnar er skipulögð og stofnunum borgarinnar ber að búa til aðgengilegt og auðskilið upplýsingaefni um þjónustu borgarinnar á tungumálum þeirra hópa sem fjölmennastir eru í Reykjavík. Loks er kveðið á um í mannréttindastefnunni að starfsfólk borgarinnar skuli leggja sig fram um að skapa andrúmsloft sem sé laust við fordóma í garð einstaklinga vegna uppruna, litarháttar, þjóðernis eða menningarlegs bakgrunns.

Á fjölmenningarþinginu verður kosið í fyrsta fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar en tilgangur ráðsins er að vera ráðgefandi fyrir mannréttindaráð og stofnanir borgarinnar í málefnum innflytjenda. Allir sem eru eldri en 18 ára, búa í Reykjavík og eru af erlendum uppruna geta boðið sig fram til ráðsins en það verður skipað fimm fulltrúum og tveimur varamönnum.

Það er von mannréttindaráðs að sem flestir innflytjendur sjái sér fært að mæta á fjölmenningarþingið og það verði vettvangur uppbyggilegra skoðanaskipta til að bæta þjónustu borgarinnar.

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar skipa:

Margrét Sverrisdóttir, formaður.

Sigurjón B. Sigurðsson.

Margrét Kristín Blöndal.

Bjarni Jónsson.

Björn Gíslason.

Þórey Vilhjálmsdóttir.

Elín Sigurðardóttir.




Skoðun

Sjá meira


×