Mentor og Ólafía, nemendafélög BA og MA nema í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, í samstarfi við Myndform, Græna ljósið og Háskólabíó blása til sannkallaðrar POWER sýningar á myndinni Precious þar sem aðalsöguhetjan er hin 16 ára Claireece Precious Jones. Sýningin verður miðvikudaginn 17. mars klukkan 20:00 og rennur allur aðgangseyrir óskiptur til Stígamóta.
„Precious býr í Harlem og er offitusjúklingur, ólæs, reið, bláfátæk og ólétt af sínu öðru barni. Hún hefur þurft að þola kynferðislega misnotkun af hálfu föður síns og andlegt og líkamlegt ofbeldi af hendi móður sinnar. Í myndinni segir hún frá eigin lífi með eigin orðum," segir í tilkynningu frá aðstandendum.
Myndin hlaut sex Óskarsverðlaunatilnefningar og hreppti tvær styttur á hátíðinni um síðustu helgi.
Stígamót héldu nýverið upp á 20. ára starfsafmæli sitt.