Erlent

Fjöldaútför í Kirgistan

Mynd/AP
Þúsundir manna mættu í jarðarför margra þeirra sem féllu í mótmælum í Bishkek höfuðborg Kirgistan á miðvikudag. 76 manns féllu í átökum við lögreglu og um 1400 manns særðust. Fjöldaútförin fór fram í útjaðri höfuðborgarinnar þar sem kistur hinna látnu voru bornar til grafar sveipaðar fána Kirgistans. Margir syrgjendur báru myndir af hinum látnu. Flestir hinna látnu féllu þegar lögregla skaut á mannfjölda sem réðst inn í opinberar byggingar í miðborginni.

Kurmanbek Bakiyev, útlægur forseti landsins, hefur flúið höfuðborgina og hefst nú við í suðurhluta landsins. Roza Otunbayeva, sem fer fyrir byltingarstjórn landsins, hefur sagt að forsetanum verði tryggð grið segi hann af sér embætti og fallist hann á að yfirgefa landið. Byltingarstjórnin þvertekur hins vegar að taka upp viðræður við forsetann um áframhaldandi völd hans.

Óttast er að forsetinn reyni að espa íbúa suðurhlutans til átaka við íbúa norðurhlutans, en grunnt hefur verið á því góða milli landshlutanna um langa hríð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×