Handbolti

Stórkostlegur sigur Íslands á Danmörku

Sverre og Ásgeir Örn fagna eftir leikinn í kvöld.
Sverre og Ásgeir Örn fagna eftir leikinn í kvöld. Mynd/DIENER/Leena Manhart

Þrátt fyrir mikil áföll í fyrstu tveim leikjum sínum á EM mættu strákarnir okkar heldur betur tilbúnir til leiks gegn Dönum í kvöld. Þeir kjöldrógu Danina og unnu stórsigur, 27-22.

Ísland vinnur þar með riðilinn og fer í milliriðil með þrjú stig en Danir tvö. Ísland byrjar því milliriðilinn í öðru sæti og er í dauðafæri á að komast í undanúrslit.

Danmörk - Ísland 22-27 (13-15)

Mörk Danmerkur (skot): Lars Christiansen 5 (8/1), Anders Eggert 4/3 (5/3), Mikkel Hansen 3 (11), Torsten Laen 2 (2), Hans Lindberg 2 (3), Kasper Nielsen 2 (3), Thomas Mogensen 2 (7), Lasse Svan Hansen 1 (1), Kasper Söndergaard Sarup 1 (4).

Varin skot: Kasper Hvidt 6 (24/3, 25%), Niklas Landin 2 (11/1, 18%).

Hraðaupphlaup: 10 (Christiansen 3, K. Nielsen 2, Mogensen 1, Laen 1, Eggert 1, Lindberg 1, Hansen 1).

Fiskuð víti: 4 (Söndergaard Sarup 2, Mogensen 1, Lindberg 1).

Utan vallar: 10 mínútur.

Mörk Íslands (skot): Guðjón Valur Sigurðsson 6 (7), Aron Pálmarsson 5 (10), Alexander Petersson 4 (5), Róbert Gunnarsson 4 (5), Arnór Atlason 3 (5), Snorri Steinn Guðjónsson 3/3 (6/4), Sverre Jakobsson 1 (1), Ólafur Stefánsson 1 (2).

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 19/1 (41/4, 46%).

Hraðaupphlaup: 7 (Guðjón Valur 2, Róbert 2, Arnór 1, Alexander 1, Sverre 1).

Fiskuð víti: 3 (Róbert 2, Guðjón Valur 1).

Utan vallar: 12 mínútur.

Dómarar: Rickard Canbro og Mikael Claesson, Svíþjóð. Frábærir.

Vísir var með beina lýsingu frá leiknum. Hana má sjá hér að neðan.

Leik lokið: 27-22. Lygilegur íslenskur sigur. Stórbrotin frammistaða hjá íslenska landsliðinu. Menn skulu aldrei afskrifa þessa stráka.

58. mín: Stefnir enn og aftur í íslenskan sigur. Þeir klúðra varla leik í þriðja sinn. 27-20. Erum að kjöldraga Danina. Það er frekar ljúft.

56. mín: Aron skorar gjösamlega ótrúlegt mark. 26-20. Það á ekki að vera hægt að klúðra þessu. Aron með lygilega innkomu. Spilar eins og margreyndur kappi.

53. mín: Úff, nú fer maður að hugsa um síðustu leiki. Nú þarf að halda út. Það verður enginn í rónni fyrr en búið er að flauta af.

53. mín: Björgvin búinn að verja mjög vel allan hálfleikinn. Aron í skyttunni og Snorri á miðjunni. Alexander skorar þegar við erum manni fleiri, 25-20.

51. mín: Aron búinn að jafna sig og kemur aftur inn enda að spila vel. Wilbek er að verða brjálaður á bekknum og fær gula spjaldið. Aron með illa ígrundað skot sem er varið. Danir refsa. 23-20.

49. mín: Snorri kemur aftur í sóknina. Danir að spila fína vörn þessar mínútur. Guðjón skorar með mark utan af velli. Magnað. 23-19.

48. mín: Mikil harka komin í leikinn núna. Knudsen gefur Aroni olnboga í hnakka. Danir minnka í þrjú mörk. Þarf að laga sóknina núna. 22-19.

45. mín: Ólafur Stefánsson skorar sitt fyrsta mark í leiknum þegar 16 mínútur eru eftir. Ekki ónýtt að eiga hann inni og vera að vinna leikinn. 22-18.

44. mín: Klúðrum sókn manni fleiri og missum svo Ingimund af velli fyrir litlar sakir. Vörnin að standa vel en hikst á sókninni. 21-17. Litið skorað núna.

41. mín: Snorri klúðrar víti og Danir skora. Kveikir aðeins í þeim. 21-17.

40. mín: Dönum gengur illa að saxa á forskotið. Strákarnir að finna flottar lausnir í sókninni. 21-16.

37. mín: Alexander kemur Íslandi í sex marka forystu, 20-14. Danir taka leikhlé. Þetta er lygilegur leikur.

36. mín: Íslendingar byrja seinni hálfleik af sama krafti og þann fyrri. Gríðarleg grimmd í liðinu og menn ákveðnir í öllum aðgerðum. Arnór skorar glæsilegt mark. Aftur fimm marka forysta, 19-14. Magnað.

34. mín: Bjöggi byrjar seinni hálfleik vel rétt eins og þann fyrri. Hann heldur vonandi áfram að verja vel. Aron fer hamförum, skorar hvert snilldarmarkið á fætur öðru. 17-14.

32. mín: Danir byrja á því að blokka Ólaf út. Það gekk vel hjá Austurríkismönnum. Vonandi leysum við það betur núna. Aron skorar þriðja markið sitt. Rennur ekki blóðið í guttanum. 16-13 fyrir Ísland.

Tölfræði fyrri hálfleiks:

Mörk Íslands: Guðjón Valur 5, Arnór 2, Róbert 2, Aron 2, Snorri 2, Sverre 1, Alexander 1.

Björgvin hefur varið 5 skot.

Mörk Dana: Lars Christiansen 5, Mikkel Hansen 3, Torsten Laen 2, Kasper Nielsen 1, Hans Lindberg 1, Kasper Söndergaard 1.

Kasper Hvidt varði 3 skot og Niklas Landin 2.

Hálfleikur: 15-13 fyrir Ísland. Ótrúlegum hálfleik lokið. Ísland byrjaði miklu betur, náði fimm marka forskoti en svo hrundi leikur liðsins og Danir skoruðu átta mörk í röð. Strákarnir létu það ekki buga sig, komu til baka og leiða í hálfleik.

28. mín: Missum Arnór af velli með tveggja mínútna brottvísun en Danir skjóta í stöng. Vörnin búinn að vera geggjuð síðustu mínútur. Danir missa mann af velli.

26. mín: Niklas Landin kominn í danska markið en það er frábær strákur sem lék undir stjórn Guðmundar hjá GOG. Hann byrjar að verja vel sem lofar ekki góðu. 14-13 fyrir Ísland.

25. mín: Danir klippa Ólaf út á meðan við erum færri. Skot Arons varið og Danir skora. Ruðningur svo dæmdur á Arnór og Danir jafna, 13-13.

22. mín: Aron Pálmarsson kemur sterkur inn og skorar gott mark. 13-11 en þá missum við Ingimund af velli.

21. mín: Strákarnir nýttu aldrei þessu vant vel að vera manni fleiri og unnu þann kafla, 2-0. Ísland komið yfir aftur. 12-11 og þá tekur Wilbek leikhlé.

19. mín: Það er lygilega fast tekist á og ekki ólíklegt að það gæti soðið upp úr síðar í leiknum. Snorri skorar úr víti, 11-11.

16. mín: Strákarnir að ná ró aftur. Búnir að jafna, 10-10.

15. mín: Eftir átta dönsk mörk í röð reif Arnór sig upp og skoraði. Liðið skoraði ekki í sjö mínútur. Leikurinn er svakalegur. 8-10.

13. mín: Guðmundur breytir liðinu. Ásgeir kemur í hornið og Alexander fer í skyttuna fyrir Óla sem hvílir aðeins. Aron að gera sig líklegan til að koma inn líka.

13. mín: Sjö dönsk mörk í röð. Þetta er lyginni líkast. Guðmundur tekur leikhlé. 7-9.

12. mín: Snorri hefur átt tvö slök skot. Danir keyra hraðaupphlaup miskunnarlaust í andlitið á okkur og eru komnir yfir. 7-8.

11. mín: Adam var ekki lengi í paradís. 7-7. Þetta á eftir að vera rosalegur leikur.

9. mín: Æsingurinn helst til of mikill núna. Strákarnir hafa nánast gefið Dönum tvö mörk. 7-4 fyrir Ísland. Fljótt að breytast.

7. mín: Það gengur nánast allt upp hjá íslenska liðinu í upphafi leiks. Strákarnir i fantaformi. 6-2 fyrir Ísland. Meira af þessu, takk.

4. mín: Sóknarleikur Íslands lofar mjög góðu í upphafi. Björgvin einnig að byrja vel. Nú þarf vörnin líka að halda. 3-1 fyrir Ísland.

2. mín: Róbert skoraði fyrsta mark leiksins. Björgvin varði síðan og Sverre skoraði úr hraðaupphlaupi. 2-0 fyrir Ísland. Flott byrjun.

1. mín: Ólafur Guðmundsson er í hópnum í fyrsta skipti í dag. Byrjunarlið Íslands er hefðbundið. Björgvin, Róbert, Guðjón, Arnór, Snorri, Ólafur og Alexander.

Fyrir leik: Það er ljóst að Króatía verður með fjögur stig í milliriðli Íslands. Í ljósi þess að ljóst að Ísland má alls ekki tapa í kvöld því Danir verða einnig með fjögur stig í milliriðlinum ef þeir vinna okkur. Þá fer Ísland bara með eitt stig í milliriðilinn rétt eins og Austurríki. Rússar verða stigalausir og Norðmenn fara væntanlega í riðilinn með tvö stig ef þeir klára Úkraínu í kvöld.












































Fleiri fréttir

Sjá meira


×