Erlent

Rússar sigurvissir um Norðurskautsyfirráð

Óli Tynes skrifar

Þjóðir sem gera tilkall til Norðurskautslandsins eru nú á fundi í Moskvu til þess að reyna að komast að samkomulagi um hver skuli fá hvað.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók þátt í fundinum.

Rússland, Bandaríkin, Kanada, Danmörk og Noregur gera öll tilkall til stórra svæða. Rússar eru þar atkvæðamestir. Þeir heimta meira að segja Norðurpólinn sjálfan og eru þegar búnir að planta fána sínum á hafsbotninn undir pólnum.

Rússar segjast vissir um að Sameinuðu þjóðirnar fallist á kröfur þeirra.

Málið snýst um landgrunn þjóðanna

Þarna er ekki um að ræða hefðbundna landhelgi heldur stendur deilan um það hversu mikið af Lomonosov fjallgarðinum sé framhald af landgrunni hverrar þjóðar fyrir sig.

Lomonosov er neðansjávar fjallgarður sem liggur undir Norðurpólinn frá Rússlandi til Bandaríkjanna og Grænlands.

Það eru engir smáræðis hagsmunir þarna í húfi því talið er að á þessu svæði sé að finna fjórðung af olíu- og gaslindum sem enn eru ófundar. Talað er um tíu milljarða tonna.

Forsetarnir vilja samvinnu

Bráðnun íss á Norðurskautinu er bæði að opna nýjar siglingaleiðir og opna aðgang að auðlindum á hafsbotni. Kapphlaupið um yfirráð harðnar því stöðugt.

Ólafur Ragnar Grímsson átti síðar um daginn fund með Dmitry Medvedev forseta Rússlands. Þar var meðal annars rætt um að auka samvinnu Íslands og Rússlands með sérstöku tilliti til mikilvægis Norðurslóða á komandi árum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×