Innlent

Þjóðaratkvæði um sjávarútveg

„Ég tel að næsta skref sé að hugleiða hvort ekki sé rétt að setja fiskveiðistjórnunarmálið næst í þjóðaratkvæðagreiðslu," segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

„Það deilumál hefur klofið þjóðina í marga áratugi og ríkisstjórnin hefur einsett sér að leiða þær deilur til lykta. Það færi vel á því að mínu mati, að niðurstaða sáttanefndarinnar, sem nú er að störfum um málið, yrði lögð fyrir þjóðina."

Jóhanna telur mikilvægt að búið sé að ryðja brautina fyrir þjóðar­atkvæðagreiðslur almennt og það sé það jákvæða við atkvæðagreiðsluna nú. „Ég býst við að þjóðaratkvæðagreiðslur verði fyrir vikið algengari í framtíðinni og vonandi næst samstaða um það á Alþingi að setja lög um þennan rétt fólks. Fólkið á að hafa þennan rétt en ekki bara forsetinn. Það má hugleiða að ef fólkið fær þennan rétt í lögum, að forsetinn hefði hann þá ekki."

Hlutverk sáttanefndar í sjávarútvegi er að endurskoða ýmis ákvæði í fiskveiðistjórnunarkerfinu og stuðla að sátt um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar. Ekki liggur fyrir hvenær nefndin mun skila áliti sínu. - shá












Fleiri fréttir

Sjá meira


×