Lífið

Túristar dansa við Jungle Drum í íslenskri náttúru

Hljómsveitinni Útidúr bregður fyrir í ímyndarauglýsingu fyrir Ísland þar sem hún leikur af sinni alkunnu snilld í veðurblíðunni á Austurvelli. Tökur á auglýsingunni, sem flokkast sem „Viral Video“, fóru fram í vikunni. fréttablaðið/GVA
Hljómsveitinni Útidúr bregður fyrir í ímyndarauglýsingu fyrir Ísland þar sem hún leikur af sinni alkunnu snilld í veðurblíðunni á Austurvelli. Tökur á auglýsingunni, sem flokkast sem „Viral Video“, fóru fram í vikunni. fréttablaðið/GVA

Landkynningarátak ferðamálafyrirtækja og iðnaðarráðuneytisins vegna eldgossins er smám saman að taka á sig endanlega mynd. Vefsíðan inspiredbyiceland.com verður opnuð í dag og nú er verið að leggja lokahönd á óhefðbundna auglýsingu.

Umrædd auglýsing skartar erlendum ferðamönnum í íslensku landslagi þar sem þeir tala um upplifun sína af íslenskri náttúru. Í sumum tilvikum hefur Ísland svo mikil áhrif að þeir stíga trylltan dans undir laginu Jungle Drum eftir Emilíönu Torrini.

Reynir Lyngdal er leikstjóri myndbandsins, tökumaður er Bergsteinn Björgúlfsson en höfundurinn er Bragi Valdimar Skúlason hjá Fíton. Bragi segir auglýsinguna hugsaða til dreifingar á netinu, hún eigi eiginlega að dreifa sér sjálf og flokkast því sem svokallað „viral video". Reynir segir það hafa verið gríðarlega skemmtilegt að vinna auglýsinguna, þeir hafi farið hringinn í kringum landið og tekið viðtöl við túrista sem flestir hafi verið bergnumdir af náttúrufegurðinni.

„Auglýsingin á fyrst og fremst að vera skemmtileg, þetta eru myndbrot af fallegum stöðum í höfuðborginni og svo úti um allt land," segir Reynir en stórsveitin Útidúr er meðal þeirra sem birtist í auglýsingunni, hún leikur af sinni alkunnu snilld á Austurvelli í blíðskaparveðri. Meðal annarra sem koma við sögu er kór Öldutúnsskóla en aðaláherslan er lögð á frásagnir ferðamannanna.

freyrgigja@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.