Lífið

Fóstbræðrasýning og Vaktarsería í uppnámi út af Besta flokknum

Velgengni Besta flokksins hefur komið mörgum á óvart. En hún gæti líka sett strik í reikninginn hjá nokkrum verkefnum Jóns Gnarr.
Velgengni Besta flokksins hefur komið mörgum á óvart. En hún gæti líka sett strik í reikninginn hjá nokkrum verkefnum Jóns Gnarr.

Skoðanakannanir benda til þess að Besti flokkur Jóns Gnarrs nái fjórum mönnum inn í borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta myndi þýða að Jón Gnarr, einn eftirsóttasti skemmtikraftur landsins, yrði í fullu starfi við að gera borgina að betri stað fyrir borgarbúa. Þetta gæti einnig þýtt að sjónvarpsþáttur, leiksýning og leikverkaritun yrðu í uppnámi. Sjálfur segir Jón Gnarr borgarmálin vera í forgangi, allt annað fái að sitja á hakanum.

Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Borgarleikhússins, vildi ekki tjá sig í samtali við Fréttablaðið hvort Jón Gnarr myndi hætta sem hirðskáld Borgarleikhússins ef hann næði kjöri sem borgarfulltrúi í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hann vildi heldur ekki segja neitt til um hvort honum þætti það eðlilegt að Jón Gnarr sæti sem fulltrúi Besta flokksins í borgarstjórn og væri um leið á launum hjá Borgarleikhúsinu sem hirðskáld.

„Við munum bara skoða þessi mál af yfirvegun þegar þar að kemur. Hún er skrítin þessi pólitík og Jón er búinn að vera á fullu síðan hann byrjaði hjá okkur. Ef einhver breyting verður á hans högum þá ræðum við það náttúrulega," segir Magnús Geir sem taldi ekki tímabært að ræða þessi mál. Jón Gnarr sjálfur sagði að hann myndi ræða þetta við Magnús Geir þegar þar að kæmi. „Þetta eru bara nokkrir tölvupóstar og einhver símtöl," segir Jón sem var ekki reiðubúinn að tjá sig um hvort hann myndi láta af starfi sínu sem hirðskáld Borgarleikhússins, nái hann kjöri.

Ragnar Bragason leikstjóri er annar sem verður að bíða og sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum í lok maí. Ráðgert er að Vaktar-hópurinn komi saman í ágúst til að leggja drög að nýrri seríu sem er algjörlega ótengd Ólafi Ragnari, Georg og Daníel og á að gerast á geðveikrahæli. Ragnar segist bara ætla að taka sér stöðu fyrir utan skrifstofu Jóns í Ráðhúsi Reykjavíkur ef hann kemst í borgarstjórn.

„Ætlaði hann ekki annars að hygla vinum sínum? Var það ekki á stefnuskránni?" spyr Ragnar sem segist ætla að kjósa Jón og Besta flokkinn í næstu kosningum, jafnvel þótt það þýði smá vesen fyrir næstu verkefni. „Ef Jón verður kosinn þá verðum við bara að bíta í það súra eplið og leysa okkar mál á einhvern annan hátt."

Ísleifur B. Þórhallsson, sem hyggst setja upp sýningu með grínleikhópnum Fóstbræðrum, segir það vissulega hafa verið vitað að listamennirnir í hópnum væru með fullt af öðrum verkefnum í gangi. „Við munum stilla okkur af í samræmi við þetta, við vissum auðvitað að hann væri á leiðinni í framboð en sáum þessa velgengni kannski ekki fyrir," segir Ísleifur en bætir því við að Fóstbræður, hvernig sem aðkoma Jóns Gnarrs verður, verði frumsýnd í mars 2011.

freyrgigja@frettabladid.is












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.