Innlent

100 prósent verðmunur í efnalaugum

Efnalaug. Myndin er úr safni.
Efnalaug. Myndin er úr safni.

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á hreinsun og þvotti í þvottahúsum og efnalaugum á höfuðborgarsvæðinu miðvikudaginn 27. október samkvæmt tilkynningu á síðu þeirra.

Mikill verðmunur var á þeim 20 þjónustuliðum sem skoðaðir voru en oftast var munurinn á hæsta og lægsta verði um og yfir 100%.

Lægsta verðið var oftast í Drífu efnalaug og þvottahúsi við Hringbraut í Reykjavík, á 8 þjónustuliðum af 20 en hæsta verðið var oftast hjá Þvottahúsinu Faghreinsun í Hafnarfirði á 5 þjónustuliðum af 20.

Mestur verðmunur var á hreinsun á langerma blússu eða 193%. Ódýrust var hún hjá Efnalauginni Kjól og hvítt Seltjarnarnesi á 560 kr. en dýrust hjá Efnalauginni Perlunni, Langholtsvegi á 1.640 kr.

Minnsti verðmunur var á buxnahreinsun sem var ódýrust hjá Borgarefnalauginni, Borgartúni, Reykjavík á 990 kr. en dýrust hjá Fatahreinsun Kópavogs og Efnalauginni Mosfellsbæ, á 1.500 kr. eða 52% verðmunur.

Mikill verðmunur var einnig á skyrtuþvotti, sem kostaði frá 250 kr. upp í 560 kr. sem er 156% verðmunur.

Kannað var verð á hreinsun og þvotti á 20 þjónustuliðum í 21 þvottahúsi og efnalaugum í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Reykjavík og Mosfellsbæ. Fatahreinsunin Geysir í Kópavogi neitaði þátttöku í verðkönnunni.

Verð í könnunni eru stykkjaverð. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×