Handbolti

Aron: Verðum að lemja á Dönunum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Kristjánsson, EM-sérfræðingur.
Aron Kristjánsson, EM-sérfræðingur.

Aron Kristjánsson, EM-sérfræðingur Vísis, er nokkuð bjartsýnn fyrir leikinn mikilvæga gegn Dönum á eftir.

„Leikurinn leggst bara vel í mig. Það er alltaf gaman að mæta Dönum. Danir hafa mjög jafnt lið og mikla breidd. Hugsanlega mestu breiddina á mótinu en á móti kemur að í liðinu er engin stórstjarna ef svo má segja. Þeir keyra frábær hraðaupphlaup og hafa magnaða markverði en vörnin er ekkert alltaf frábær hjá þeim," sagði Aron sem þekkir vel til danska liðsins eftir að hafa þjálfað í Danmörku um árabil.

„Lykilmaður hjá þeim er skyttan unga, Mikkel Hansen. Hann gerði Serbum lífið leitt og það þarf að stöðva hann. Labba út í hann og berja á honum. Honum líkar það illa eins og reyndar Dönum yfir höfuð," sagði Aron sem segir mikilvægt að Íslendingar berji hraustlega frá sér í leiknum.

„Danir höndla það ekki vel þegar barið er á þeim. Það verður að vera brjáluð barátta í vörninni hjá okkur. Danir eru mjög hissa á okkar gengi og gætu mætt örlítið værukærir til leiks. Við þurfum að nýta okkur það og lemja almennilega á þeim.

Lykillinn hjá okkur í dag er að Sverre og Ingimundur eigi algjöran toppleik. Annars eigum við ekki möguleika," sagði Aron sem vonast til þess að sjá meira af nafna sínum Pálmarssyni í þessum leik.

„Við höfum spilað á of fáum mönnum til þessa í mótinu og lykilleikmenn verða fljótt þreyttir með þessu áframhaldi. Snorri hefur stýrt sóknarleiknum afar vel en skotógnunin hefur ekki verið næg. Ég vil sjá meira af Aroni í þessum leik því hann kemur með eitthvað nýtt og einnig er mikil skotógnun af honum," sagði Aron en hann spáir islenskum sigri.

„Ég held að við vinnum þennan leik með tveim mörkum. Það hefur verið margt jákvætt í leik íslenska liðsins til þessa."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×