Innlent

Aðeins 30% upp í Icesave ef kröfuhafar vinna mál gegn slitastjórn

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Alþjóðlegir bankar hafa borið ágreining við slitastjórn Landsbankans undir dómstóla til að hnekkja því að innstæður séu forgangskröfur. Ef þeir vinna málið fæst aðeins 30 prósent upp í Icesave af eignum Landsbankans.

Stærstu einstöku kröfurnar í þrotabú Landsbankans koma annars vegar frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda í Bretlandi (FSCS) upp á 850 milljarða króna og hins vegar Seðlabanka Hollands (DNB) upp á 290 milljarða, eða samtals rúmlega 1100 milljarðar króna. Slitastjórn Landsbankans samþykkti kröfurnar sem forgangskröfur á grundvelli heimildar í neyðarlögunum. Almennir kröfuhafar Landsbankans, m.a stórir bankar og skuldabréfaeigendur, sætta sig ekki við það og hafa því stefnt málinu fyrir dóm á grundvelli heimildar í lögum um gjaldþrotaskipti.

Ljóst er að ef Héraðsdómur Reykjavíkur fellst á þá kröfu hóps alþjóðlegra banka og skuldabréfaeigenda að kröfur sparifjáreigenda verði ekki samþykktar sem forgangskröfur verður það miklu hærri upphæð sem mun standa ógreidd vegna Icesave heldur en ef kröfurnar yrðu samþykktar.

Með því að bera ágreining um ákvörðun slitastjórnar undir dómstóla verður tekist á um ellefu hundruð milljarða og lögmæti neyðarlaganna, því almennir kröfuhafar Landsbankans telja neyðarlögin ganga í berhögg við stjórnarskrána og alþjóðlegar skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur gengist undir. Löggjafanum hafi því ekki verið heimilt að taka sparifjáreigendur fremst í kröfuröð með því að gera innstæður að forgangskröfum.

"Ef að niðurstaða dómstóla verður á þann veg að það sé ekki viðurkenndur forgangur fyrir þessum kröfum þá yrðu þær væntanlega samþykktar sem almennar kröfur og stæðu þá jafnfætis skuldabréfum, millibankalánum og slíku," segir Kristinn Bjarnason, formaður slitastjórnar Landsbankans.

Búist er við að 90 prósent fáist úr þrotabúinu upp í forgangskröfur í dag."Ef að forgangurinn myndi falla niður þá yrðu heimturnar 30-35 prósent sem yrði greiðsla upp í almennar kröfur," segir Kristinn.

Þeir kröfuhafar, aðallega stórir alþjóðlegir bankar og skuldabréfaeigendur, sem mótmæla ákvörðun slitastjórnar að veita innstæðunum forgang eiga að skila greinargerð hinn 11. júní næstkomandi. Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður, sem gætir hagsmuna þeirra varð ekki við ósk fréttastofu um viðtal. Ljóst er að ef kröfuhafarnir sem vilja hnekkja ákvörðun slitastjórnar vinna málið setur það viðræður um Icesave í nýtt samhengi, en hingað til hefur verið gengið út frá því að forgangur innstæðueigenda sé til staðar. Dómstólar hafa hins vegar ekki enn skorið úr um lögmæti neyðarlaganna.

Íslenska ríkið hefur staðið í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga vegna lágmarkstryggingarinnar, þ.e 20.887 evrum á hvern innstæðueigenda. Allt umfram það eru kröfur sem innstæðueigendur og framsalshafar krafna vegna innstæðna, t.d tryggingarsjóðurinn í Bretlandi, gera í þrotabú Landsbankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×