Innlent

Fækkun sparar 360 milljónir

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra.
Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra. Mynd/Anton
Stjórnarfrumvarp sem lagt hefur verið fram á Alþingi gerir ráð fyrir að ráðuneytum verði fækkað um þrjú með sameiningu ráðuneyta.

Frumvarpið er lagt fram í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkis­stjórnarinnar. Í því er lagt til að dómsmála- og mannréttindaráðuneyti verði sameinað samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í nýju innanríkisráðuneyti. Lagt er til að félags- og tryggingamálaráðuneytið sameinist heilbrigðisráðuneytinu í svonefndu velferðarráðuneyti. Þá felur frumvarpið í sér að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið sameinist í einu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu segir að samþykkt þess geti leitt til um 360 milljóna króna sparnaðar á ári auk lækkunar á húsnæðiskostnaði og öðrum kostnaði vegna samlegðaráhrifa. „Vegna biðlauna og tímabundins kostnaðar við breytingar á húsnæði og flutning má þó allt eins gera ráð fyrir að ekki muni takast að ná fram nema hluta þeirrar kostnaðarlækkunar á fyrstu 12 mánuðum eftir gildistöku," tekur ráðuneytið þó fram.

Enn fremur er ætlunin að þeir þættir sem tilheyrt hafa auðlindamálum í iðnaðarráðuneytinu og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu færist til umhverfisráðuneytisins sem eftirleiðis verði nefnt umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Útfærslu á þessu er ekki að finna í frumvarpinu enda mun hún ekki vera tilbúin.

Í athugasemdum með frumvarpinu segir að velferðarráðuneyti muni hafa betri yfirsýn yfir velferðarúrræði, „allt frá forvörnum og félagslegum úrræðum til heilbrigðisþjónustu, og tryggja betri yfirsýn og nýtingu fjármuna og um leið sveigjanlegri velferðarþjónustu".

Þá segir að að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið muni „styrkja stjórnsýslu og stuðning stjórnvalda við helstu atvinnuvegi landsmanna og nýsköpun og sameina þjónustu og umgjörð fyrir allar atvinnugreinar á einum stað."

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið er sagt munu fá aukið hlutverk varðandi rannsóknir, nýtingarstefnu, ráðgjöf og verndun á sviði auðlindamála.

„Loks mun nýtt innanríkisráðuneyti skapa ramma um innanríkismál og innviði samfélagsins, öryggis- og varnarmál á lofti, sjó og landi og þar með allar stofnanir sem sinna þjónustu á þessum sviðum," segir í athugasemdunum.

Kristján L. Möller
Árni Páll Árnason


Álfheiður Ingadóttir
Jón Bjarnason
Katrín Júlíusdóttir
Svandís Svavarsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×