Lífið

Dikta freistar gæfunnar í Þýskalandi

Nonni kjuði, eða Jón Þór Sigurðsson, er spenntur fyrir tónleikaferð Diktu til Þýskalands og Lúxemborgar.
Nonni kjuði, eða Jón Þór Sigurðsson, er spenntur fyrir tónleikaferð Diktu til Þýskalands og Lúxemborgar.
Hljómsveitin Dikta er á leiðinni í stutta tónleikaferð til Þýskalands og Lúxemborgar. Sveitin flýgur af landi brott á miðvikudaginn í næstu viku og tónleikarnir verða fernir, þar af þrennir í Þýskalandi.

„Það er svolítið síðan við höfum farið út. Við erum spenntir að komast eitthvað og ætlum að grallarast saman og hafa gaman," segir trommarinn Nonni kjuði, sem heitir réttu nafni Jón Þór Sigurðsson. „Við ætlum líka að hitta fólk sem við höfum verið að vinna með í Þýskalandi sem við höfum ekki hitt augliti til auglitis." Um þýskt útgáfufyrirtæki er að ræða sem hefur verið í viðræðum við Diktu í nokkurn tíma um útgáfu plötu þeirra þar í landi og víðar um Evrópu.

Dikta fór síðast í tónleikaferð erlendis haustið 2008 þegar hún spilaði í Los Angeles og New York og því kominn tími til að hún haldi áfram að breiða út fagnaðarerindið. Stefnan hefur verið sett á aðra tónleikaferð í haust en ekki er ljóst hvert farið verður.

Í sumar verður síðan nóg að gera hjá Diktu hér heima. Sveitin er þegar búin að bóka sig fyrir verslunarmannahelgina auk þess sem fjöldi balla er fyrirhugaður víðs vegar um landið. Einnig stefnir sveitin á að taka upp nýtt prufuefni í sumar og gangi upptökurnar vel er stefnan sett á plötu sem kæmi líklega út á næsta ári.

Nonni kjuði segist ekki hafa búist við þessum gríðarlegu vinsældum Diktu að undanförnu. „Þetta er bara rosagaman, sérstaklega af því að við gerðum þetta svo mikið sjálfir. Við unnum plötuna alveg sjálfir nema hljóðblöndun og masteringu. Þess vegna er enn þá meira gaman að uppskera svona."

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.