Handbolti

Björgvin: Hef ekki hugmynd um hvað ég varði mörg skot

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Björgvin var í gríðarlegu stuði í kvöld.
Björgvin var í gríðarlegu stuði í kvöld. Mynd/DEINER/Leena Manhart

Björgvin Páll Gústavsson sagðist ekki hafa hugmynd um hvað hann varði mörg skot í leiknum gegn Dönum í kvöld en frammistaða hans í leiknum var í heimsklassa.

Alls varði Björgvin nítján skot í leiknum eða 46 prósent þeirra skota sem hann fékk á markið. Það eru hreint ótrúlegar tölur, sér í lagi gegn ríkjandi Evrópumeisturunum.

„Við vorum að spila ótrúlega góða vörn í þessum leik. Þeir voru skíthræddir við okkur allan leikinn. Við rúlluðum yfir þá fyrstu mínúturnar og þeir komust svo aftur inn í leikinn. En það var í raun eini tíminn sem þeir voru eitthvað inni í leiknum.“

Björgvin vildi lítið gera úr sínu framtaki í leiknum. „Ég hef í raun ekki hugmynd um hvað ég verði mörg skot í leiknum. Ég var bara í mínu „zone-i“ og með frábæra vörn fyrir framan mig. Okkur líður svo ótrúlega vel á vellinum að við erum sem einn maður.“

Íslenska liðið hefur lent í miklu mótlæti í vikunni en Björgvin hefur skýringu á því hvað varð til þess að liðið svaraði svo vel fyrir sig í kvöld.

„Það sem önnur lið hafa ekki er að þau eru ekki frá Íslandi. Við sýndum geðveikina og við erum það klikkaðir að við myndum mæta í leik þó svo að Frakkar og Spánverjar væru saman í hinu liðinu. Og við myndum reyna að vinna þann leik.“

„Við stigum allir hér upp í kvöld. Þetta var frábær árangur hjá okkur.“

Og skýringin liggur í undirbúningsvinnu liðsins. „Við stúderuðum Danina hrikalega vel og menn lögðu gríðarlega mikla vinnu í undirbúninginn. Maður skapar sína eigin óheppni og því lögðum við afar mikla vinnu í leikinn. Enda kom það í ljós að við vorum með þá allan tímann.“

„Það bara gekk allt upp. Strax í byrjun leiksins þá voru sóknarmenn Dana þvingaðir í mjög erfið skot og þá fékk ég strax 4-5 skot gefins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×