Handbolti

Austurríki vann - Ísland öruggt áfram á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roland Schlinger og félagar fóru á kostum í dag.
Roland Schlinger og félagar fóru á kostum í dag. Mynd/DIENER/Leena Manhart

Ísland er komið áfram í milliriðlakeppnina á Evrópumeistaramótinu í handbolta sem fer fram í Austurríki. Þökk sé sigri heimamanna á Serbum í Linz í dag, 37-31, sitja Serbar eftir í neðsta sæti riðilsins með eitt stig.

Austurríkismenn eru nú með þrjú stig og taka eitt stig með sér í milliriðlakeppnina.

Það ræðst svo á eftir hvort Ísland fer með eitt, tvö eða þrjú stig með sér til Vínarborgar þar sem riðill Íslands fer fram í næstu viku. Ísland mætir Danmörku í lokaleik riðlakeppninnar hér í Linz.

Serbar byrjuðu af krafti og komust í 4-0. Þeir voru með undirtökin lengst af í fyrri hálfleik en eins og áður í þessarri keppni gáfust Austurríkismenn einfaldlega ekki upp.

Viktor Szilagyi, fyrirliði og prímusmótor Austurríkismanna, fór á kostum á leiknum eins og í mótinu öllu. Hann er að stimpla sig inn sem einn allra besti leikmaður keppninnar.

Hann fór fyrir sínum mönnum í ótrúlegum síðari hálfleik þar sem Austurríki breytti stöðunni úr 22-23 í 29-24 á aðeins átta mínútum. Þeir litu aldrei um öxl eftir það.

Fagnaðarlætin sem brutust út í leikslok voru ótrúleg en fyrst og fremst einlæg. Austurríkismenn eiga þetta skilið.

Varamarkvörðurinn Thomas Bauer var stórkostlegur í leiknum og varði mörg mikilvæg skot. Hann var valinn maður leiksins. Szilagyi skoraði níu mörk og hornamaðurinn Robert Weber átta. Hinn hornamaðurinn, Konrad Wilczynski, skoraði sex mörk.

Sesum Zarko skoraði átta mörk fyrir Serbíu og Nenad Vuckovic sjö.

Þjálfari Austurríkis er sem kunnugt er Dagur Sigurðsson og á hann mikið hrós skilið fyrir árangur liðsins í Linz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×