Handbolti

Guðmundur: Með mínum stærstu sigrum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Guðmundur fagnar hér gríðarlega í kvöld.
Guðmundur fagnar hér gríðarlega í kvöld. Mynd/DIENER/Leena Manhart

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari sagði sigurinn á Danmörku í kvöld vera einn þann stærsta á sínum ferli með landsliðinu.

Ísland vann glæsilegan sigur á Danmörku, 27-22, í lokaumferð riðlakeppninnar á EM í Austurríki og vann þar með sigur í riðlinum.

Ísland fer nú með þrjú stig í milliriðlakeppnina, Danmörk tvö og Austurríki eitt. Serbar sitja eftir.

„Þetta er með þeim allra stærstu sigrum sem ég hef unnið á mínum ferli," sagði Guðmundur við Vísi eftir leikinn.

„Það var ansi margt sem gekk á hjá okkur í þessari viku og hún var virkilega erfið. Það reyndi mikið á sérstaklega leikmenn og þjálfara sem og alla aðra í kringum liðið," bætti hann við.

„Það var mjög sérstök tilfinning að fara svona illa að ráði okkar eins og við gerðum."

Ísland gerði jafntefli við Serbíu og Austurríki í fyrstu tveimur leikjum sínum og kastaði frá sér sigrinum í báðum leikjunum. Guðmundur ákvað til að mynda eftir leikinn gegn Austurríki að dvelja ekki lengur við hann en nauðsyn krafðist.

„Ég tel að við gerðum rétt með því að ræða það ekki frekar."

Íslenska vörnin var ótrúleg í dag og sést það best á því að ef frá er tekinn rúmur átta mínútna kafli snemma í leiknum þar sem Danir skoruðu átta mörk í röð skoruðu Evrópumeistararnir ekki nema fjórtán mörk á hinum 52 mínútunum.

„Þessi varnarleikur bjó í liðinu og við vorum að bíða eftir því að hann myndi smella saman. Leikmenn eiga sannarlega hrós skilið."

„Ég er einnig sáttur með hvað leikáætlunin okkar gekk vel. Við fórum afar markvisst í allar þeirra sóknaraðgerðir og brutum þá á bak aftur. Þeir áttu bara ekki „breik" í okkur í síðari hálfleik."

„Ég var líka sáttur við sóknarleikinn. Aron kom mjög sterkur inn og ég er eftir á að hyggja afar ánægður með þá ákvörðun að hafa ekki notað hann fyrr en nú. Hann hefur verið að jafna sig á hnjámeiðslum og er núna tilbúinn. Hann hefur líka verið að fá meiri tíma á æfingum og það var kominn rétti tíminn til að setja hann í alvöru leik."

„Með því fengum við aukna breidd í liðið og nú vinnum við áfram í því fyrir átökin í milliriðlakeppninni."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×