Handbolti

Leikur aldarinnar í Austurríki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Mynd/Diener/Leena Manhart

Austurríkismenn mæta í dag Serbíu í lokaumferð riðlakeppninnar á EM í handbolta og eiga góðan möguleika á að komast áfram í milliriðlakeppnina.

Þökk sé jafnteflinu gegn Íslandi á fimmtudagskvöldið dugar Austurríki jafntefli gegn Serbíu í dag. Leikurinn hefst klukkan 17.00.

Fjölmiðlar í Austurríki hafa vel fylgst með mótinu og sínum mönnum. Michael Gangel, fyrrum landsliðsmaður Austurríkis, skrifar í dálki sínum í Kurier-dagblaðinu í dag að leikurinn sé sá mikilvægasti sem Austurríki hafi spilað frá upphafi.

„Leikur aldarinnar,“ segir í fyrirsögn hans. „Að baki leiksins í dag liggur tveggja ára vinna,“ skrifar hann og segist hafa trú á því að liðið geti gert góða hluti í leiknum í dag.

„Leikmenn eru raunhæfir og gríðarlega einbeittir. Liðið er gríðarlega vel skipulagt sem er nauðsynlegt til að geta keppt á meðal þeirra bestu.“

Leikstjórnandinn Vitus Ziura segir þetta einstakt tækifæri fyrir austurrískan handbolta.

„Þetta er tækifæri lífs okkar. Það fær okkur nú ekkert stöðvað,“ sagði hann við austurríska fjölmiðla.

„Við höfum undirbúið okkur fyrir þetta í mörg ár,“ sagði hornamaðurinn öflugi Konrad Wilczynski. „Og við erum ekki draumóramenn. Við vitum vel hvað við getum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×