Handbolti

Möguleikar Íslands í riðlinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Stuðningsmenn Íslands hafa staðið sig vel.
Stuðningsmenn Íslands hafa staðið sig vel. Mynd/Diener/Leena Manhart

Ísland á enn möguleika á því að falla úr leik í riðlakeppninni eða þá að fara áfram í milliriðlakeppnina með þrjú stig - flest allra liða í riðlinum.

Ísland mætir Danmörku í lokaumferð riðlakeppninnar í kvöld, eftir leik Austurríkis og Serbíu.

Danmörk vann í fyrradag Serbíu, 28-23. Það þýðir að Danir eru öruggir áfram í milliriðlakeppnina og taka að minnsta kosti tvö stig með sér.

Ef Ísland vinnur Danmörku fara Íslendingar með þrjú stig með sér í milliriðlakeppnina og Danir verða enn bara með tvö.

Sigurvegari leiks Serbíu og Austurríkis fer þá áfram í milliriðlakeppnina með eitt stig. Verði niðurstaðan jafntefli í þeim leik fer Austurríki áfram þar sem liðið tapaði með minni mun fyrir Danmörku en Serbía.

Tapi Ísland hins vegar fyrir Danmörku fer það eftir úrslitum leiks Austurríkis og Serbíu hvort liðið kemst áfram í milliriðlakeppnina.

Verði niðurstaðan sú að leiknum lyktar ekki með jafntefli kemst Ísland áfram með eitt stig áfram í milliriðlakeppnina.

Verður niðurstaðan hins vegar jafntefli verða Austurríki, Serbía og Ísland öll með tvö stig. Þá er spurningin hversu mörg mörk verða skoruð í leik Austurríkis og Serbíu.

Ef liðin skora hvort um sig 38 mörk eða fleiri í leiknum er Ísland úr leik og Austurríki og Serbía komast áfram.

Verði niðurstaðan að liðin skori 36 mörk eða færri komast Austurríki og Ísland áfram.

Verði niðurstaðan 37-37 jafntefli flækjast málin því þá eru Serbía og Ísland með jafn mörg mörk skoruð í innbyrðisviðureignum þessara þriggja liða. Austurríki væri þó komið áfram.

Þá skiptir heildarmarkatalan í riðlinum máli og þá má Ísland ekki tapa með stærri mun fyrir Danmörku en Serbía gerði í kvöld. Það þýðir í mesta lagi fjögurra marka tap eða þá fimm marka tap og þá yrði Ísland að skora meira en 23 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×