Handbolti

Oleg Velyky látinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Oleg Velyky.
Oleg Velyky.

Þýski handknattleiksmaðurinn Oleg Velyky er látinn, aðeins 32 ára gamall. Hann fæddist í Úkraínu en lék með Hamburg í þýsku úrvalsdeildinni og með þýska landsliðinu.

Velyky greindist fyrst með húðkrabbamein árið 2003 og tók það sig svo aftur upp árið 2008. Hann lést í nótt.

Forseti þýska handknattleikssambandsins greindi frá þessu í herbúðum þýska landsliðsins í Innsbruck í dag. Þar keppir þýska landsliðið á EM í handbolta sem nú fer fram í Austurríki.

Hann skilur eftir sig eiginkonu og sjö ára gamlan son.

Velyky kom til Þýskalands frá STR Saporischschja árið 2001 og lék með TUSEM Essen til 2005. Þá fór hann til Rhein-Neckar Löwen þar sem hann var í þrjú ár en hann hefur verið í herbúðum Hamburg síðan 2008.

Hann lék 59 landsleiki með Úkraínu og 38 með Þýskalandi, þann fyrsta gegn Sviss árið 2005.

Hann varð fyrir því óláni að slíta krossbönd í hné eftir aðeins nokkrar mínútur í fyrsta leik Þýskalands á EM í Noregi fyrir tveimur árum síðan. Það reyndist vera hans síðasti landsleikur.

Gríðarlega mikil sorg ríkir í búðum þýska landsliðsins. Heiner Brand, landsþjálfari, var með tárin í augunum þegar hann ræddi við fjölmiðlamenn í dag.

„Maður vonaðist alltaf eftir kraftaverki. En þegar maður þarf að horfast í augu við kaldan raunveruleikann er niðurstaðan mikið áfall," sagði Brand.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×