Lífið

Tónlistarmyndband Besta flokksins slær aðra flokka út

Tinni Sveinsson skrifar
„Út með Bjarna Ben og inn með Einar Ben,“ er meðal þess sem Jón Gnarr þrumar yfir Reykvíkingum.
„Út með Bjarna Ben og inn með Einar Ben,“ er meðal þess sem Jón Gnarr þrumar yfir Reykvíkingum.

Besti flokkurinn frumsýndi nú um helgina nýtt kosningamyndband flokksins og fer það eins og eldur í sinu um Netið.

Jón Gnarr leiðir þar flokk listamanna í söng lagsins Besta lag í heimi. Lagið er ábreiða á lagi Tinu Turner, „Simply the best", en flokksmeðlimir syngja í staðinn „Við erum best" í viðlaginu.

Myndbandið við lagið er fantaflott. Það kemur ekki á óvart þar sem margir frambjóðendur og aðrir flokksmeðlimir eru atvinnufólk í tónlist og kvikmyndagerð. Það er til að mynda sett inn á YouTube af kvikmyndagerðamanninum Sigvalda J. Kárasyni.

Hér syngja Elsa Yeoman, sem er í 4. sæti, Snorri Helgason í Sprengjuhöllinni, Jón Gnarr borgarstjóraefni og Karl Sigurðsson Baggalútur, sem er í 5. sæti.

Í myndbandinu syngja Jón Gnarr, Elsa Yeoman, Karl Sigurðsson, Barði í Bang Gang, Snorri Helgason, Einar Örn Benediktsson, Óttarr Proppé, Magga Stína, Ágústa Eva og fleiri.

Tónlistar- og myndbandagerð af þessu tagi er ekki ný af nálinni í kosningabaráttu hér á landi þó að Besti flokkurinn slái örugglega út alla þá sem hafa spreytt sig á þessum slóðum áður.

Óttar Proppé er í 3. sæti listans og Magga Stína í því 8.

Eftirminnilegt er þegar Sjálfstæðisflokkurinn á Ísafirði gerði lag og myndband fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2006 þar sem Halldór Halldórsson leiddi frambjóðendur í söngnum „Til sigurs aftur og enn". Myndbandið má sjá hér.

Þá gáfu framsóknarmenn út lag fyrir Alþingiskosningarnar 2007 þar sem Magnús Stefánsson leiddi sönginn „Árangur áfram ekkert stopp". Lagið má heyra hér.

Myndband Besta flokksins má svo sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.