Skoðun

Nýtt Ísland

Birgir Loftsson skrifar

Það er viðeigandi að fara út í stjórnarskrárbreytingu eftir þá miklu kollsteypu sem íslenskt samfélag hefur orðið fyrir og raunar er það löngu orðið tímabært.

Stjórnarskrá er samfélagssáttmáli um grunngildi samfélagsins og er hún heiti yfir allar þær reglur sem ráða stjórnskipun ríkisins. Rétt er hafa í huga að hún getur verið í formi eins ákveðins skjals eða verið óskrifuð. Þannig geta hefðir og venju haft stjórnskipuleg gildi og verið hluti af stjórnarskránni.

Íslendingar vildu hins vegar og fengu ritaða stjórnarskrá árið 1874 en hún var kölluð ,,Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands" og er að stofni til sú sama og núgildandi stjórnarskrá. Það er því ljóst að hún er löngu úreld; samin fyrir íslenskt samfélag á 19. öld þegar Íslendingar voru undir erlendri stjórn.

Markmið mitt með framboði til stjórnlagaþings er að stuðla að gerð stjórnarskrár sem er alíslensk að uppruna og samin fyrir íslenskt nútímasamfélag. Það er hins vegar gott að skoða og taka upp það sem vel hefur verið gert í öðrum löndum. Þýska og svissneska stjórnarskrárnar eru dæmi um velheppnuð verk.

Þær breytingar sem ég vil helst sjá er algjör aðskilnaður á hinu þríþætta valdi, þ.e.a.s. aðskilnað löggjafar- og framkvæmdarvalds. Það þýðir fækkun þingmanna og að ráðherrar fái ekki sæti á Alþingi. Einnig verður að gæta betur að sjálfstæði dómskerfisins en nú er gert. Skýra verður betur hvaða hlutverki forseti Íslands á gegna og setja á betri starfsreglur fyrir forsetaembættið.

Hlúa verður sérstaklega að fullveldishugtakinu í stjórnarskránni, nú þegar Íslendingar eru að huga inngöngu í Evrópusambandið. Skrá verður í stjórnarskrána að fullveldi Íslands sé í höndum íslensku þjóðarinnar, ekki Alþingis, og hún ein geti gefi eftir fullveldi landsins og jafnframt tekið það til baka. Það sé gert með þjóðaratkvæði. Enda vil ég sjá víðtækari beitingu þjóðaratkvæðis en hingað til hefur verið gert. Hér er ég að tala um takmarkað þjóðaratkvæði, t.d. ætti ekki að vera hægt að hafa þjóðaratkvæðisgreiðslu um skattamál. En með flestum öðrum erfiðum deilumálum er þjóðinni fulltreystandi til að ráða fram úr án íhlutunar misvitra og sérhagsmunasinnaðra þingmanna.

Auðlindir landsins eru mikið hitamál í dag og verður áfram um ókomna framtíð. Tryggja verður að það komi fram í stjórnarskránni að þjóðin eigi auðlindir landsins. Með öðrum orðum að auðlindir hafsins, orkan í jörðinni og vatnið séu í eigu þjóðarinnar. Ríkið, hið þríþætta vald getur hins vegar hlutast um og ráðstafað þessu auðlindum með umboði þjóðarinnar (með þjóðaratkvæði). Girða verður fyrir að ríkisvaldið geti með einfaldri lagasetningu afsalað auðlindirnar í hendur einstakra aðila nema sem skamman afnotarétt sem borga verður fyrir.

Mörg önnur mál eru mér hugleikin sem ég tel að eigi að laga í stjórnarskránni en ég enda orð mín á þessum alkunnu sannindum; það sem kynslóðir hafa skapað og staðist hefur tímans tönn, ber að varðveita og þar af leiðandi á ekki að breyta öllu í stjórnarskránni, einungis breytinganna vegna.








Skoðun

Sjá meira


×