Innlent

Synjun styrkir samningsstöðuna

Það er nauðsynlegt að fella Icesave-lögin frá því í desemberlok úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun. Við það styrkist samningsstaða Íslands.

Þetta er mat Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins.

„Fyrst voru menn að ræða málin á nýjum grunni en svo allt í einu kom tilboð sem grundvallaðist á gömlu samningunum. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að fella lögin úr gildi og losna þar með við þessa gömlu samninga," segir Sigmundur Davíð.

Hann hefur fulla trú á að Bretar og Hollendingar verði áfram reiðubúnir til viðræðna eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna enda hafi á fyrri stigum verið rætt um að sérstök yfirlýsing þess efnis yrði gefin út.

Sigmundur segir óformlegar viðræður samninganefndanna í London síðustu daga vera á forræði ríkisstjórnarinnar; stjórnarandstaðan hafi ekki lengur aðkomu að þeim.

„Ég hef ekkert heyrt í dag [í gær] og raunar hefur stjórnarandstaðan verið lítið inni í þessum svokölluðu óformlegu viðræðum. Ég veit því ekkert um hvað er verið að tala," segir hann. Símafundir forystumanna stjórnmálaflokka með samninganefndinni hafi ekki verið haldnir í marga daga.

„Fulltrúi stjórnarandstöðunnar í nefndinni hefur gert mönnum grein fyrir að þessar óformlegu viðræður séu ekki á vegum stjórnarandstöðunnar."-bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×