Lífið

Maður Heru mikið spurður út í Eurovision-kjólinn

Halldór og Hera Björk eru dugleg að ganga á fjöll og sjást hér í einni af sínum göngum. Halldór verður að sjálfsögðu í Ósló þegar Hera tekur þátt í undankeppni og úrslitum Eurovision.
Halldór og Hera Björk eru dugleg að ganga á fjöll og sjást hér í einni af sínum göngum. Halldór verður að sjálfsögðu í Ósló þegar Hera tekur þátt í undankeppni og úrslitum Eurovision.
„Auðvitað smitast maður af þessu. Núna er maður á ári eitt í Eurovision,“ segir Halldór Eiríksson, rekstarhagfræðingur í innkaupadeild álversins í Reyðarfirði. Hann er unnusti Heru Bjarkar, fulltrúa Íslands í Eurovision, og stendur að sjálfsögðu þétt við bakið á sinni konu.

Halldór viðurkennir að hafa verið laumuaðdáandi Eurovision, rétt eins og flestir Íslendingar. „Allir á Íslandi hafa gaman af Eurovision og það er virkilega forvitnilegt að kynnast þessari keppni og undirbúningnum fyrir hana í svona nálægð,“ segir Halldór en þeir sem hafa farið á Eurovision-keppni segja þetta einstaka upplifun og margir eiga hreinlega ekki afturkvæmt úr Eurovision-æðinu. „Nei, þetta virðist vera einstakt karnival,“ segir Halldór.

Eurovision-hópurinn heldur til Óslóar á laugardaginn en töluverð óvissa ríkti um hvort treysta ætti á að flugleiðir væru opnar vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Í gær var svo tekin ákvörðun um að fljúga og Halldór vonar að veðurguðirnir verði íslenska hópnum hliðhollir. „Annars fannst mér á þeim að þau væru bara til í allt, hvort sem það væri sigling með Norrænu eða eitthvað annað. En það er vissulega betra að fara flugleiðina og koma óþreytt út,“ segir Halldór en hann hefur mátt verjast spurningum frá samstarfsfólki sínu sem vilja vita allt um hvernig undirbúningurinn gangi. „Ég á voðalega bágt með mig, má ekkert segja en fæ margar spurningar, hvernig kjóllinn líti út og svo framvegis. Það sýna þessu allir mikinn áhuga,“ segir Halldór sem fer sjálfur til Noregs og verður í Ósló þegar undanúrslitin hefjast á þriðjudeginum. Og að sjálfsögðu einnig þegar úrslitakvöldið verður en Halldór er handviss um að Hera komist þangað.

Í viðtali við Séð og heyrt fyrir skömmu viðurkenndi Hera Björk að Halldór væri einn af fáum sem hefði þorað að syngja fyrir hana. „Já, maður er svolítið skúffaður yfir því að hafa ekki komist í bakraddirnar, maður bregður kannski fæti fyrir einhverjum af bakröddunum,“ segir Halldór og hlær.

freyrgigja@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.