Lífið

Forseti Eistlands bað um einkatónleika hjá Bedroom Community

Toomas forseti er hress og með fínan tónlistarsmekk. Hér er hann með Ólafi Ragnari forseta.
Toomas forseti er hress og með fínan tónlistarsmekk. Hér er hann með Ólafi Ragnari forseta.
„Þetta var mjög sérstakt," segir Sturla Mio Þórisson, hljóðversstjóri í Gróðurhúsinu.

Toomas Hendrik Ilves, forseti Eistlands, heimsótti hljóðverið á miðvikudagskvöld ásamt eiginkonu sinni Evelin og föruneyti sínu.

Það samanstóð af 25 manna sendinefnd og hópi lífvarða.

„Við höfum aldrei tekið á móti svona þjóðhöfðingja í stúdíóinu áður. Það var líka skrýtið að hafa þarna menn sem voru talandi ofan í ermina á sér," segir Sturla.

Forsetinn, sem er staddur hér á landi í opinberri heimsókn, er mikill áhugamaður um tónlist og er sérlegur aðdáandi þeirra tónlistarmanna sem gefa út hjá Bedroom Community, sem hefur aðstöðu í Gróðurhúsinu.

Hann missti af tónleikum sem Valgeir Sigurðsson, Daníel Bjarnason og Nico Muhly úr Bedroom Community héldu í Tallin í Eistlandi á dögunum og óskaði því eftir að komast á hálfgerða einkatónleika í Gróðurhúsinu.

Þar spiluðu fyrir hann þeir Daníel Bjarnason og Ben Frost. „Hann virtist mjög sáttur. Það lofuðu þetta allir í hástert," segir Sturla um viðbrögð forsetans og föruneytisins. Eftir heimsóknina, sem stóð yfir í um eina og hálfa klukkustund, kíkti hluti sendinefndarinnar á Kaffibarinn en forsetahjónin létu það vera, enda orðin þreytt eftir langan og strangan dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.