Handbolti

Björgvin: Þýðir ekki að leggjast í volæði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. Mynd/Leena Manhart
Björgvin Páll Gústavsson sagði engan tilgang í því að svekkja sig á jafnteflinu við Austurríki á EM í handbolta í kvöld.

 „Maður skilur þetta ekki ennþá. Í fyrradag voru með með unninn leik í höndunum og missum hann í jafntefli. Svo aftur í dag,“ sagði hann.

 „Menn sáu svo sem hvað gerðist hjá dómurunum og ég þarf ekkert að tjá mig um það. Það er auðvelt að pirra sig á þeim en það vorum þó við sem misstum boltann og gáfum hann frá okkur.“

 „Síðasta skotið var svo bara einskær óheppni. Hreiðar [Guðmundsson markvörður] datt og svona lagað gerist bara einu sinni af 100 skiptum. Með svona mikilli óheppni hljótum við að fá eitthvað gott úr næsta leik. Vonandi styrkir það okkur bara.“

 „Ef við klárum Danina á laugardaginn förum við í milliriðlana með þrjú stig. Þetta er því enn í okkar höndum og nú þurfum við að passa okkur á því að leggjast ekki í volæði og vera að grenja yfir þessu. Það sem drepur mann ekki styrkir mann og vonandi á það við núna. Ef það er eitthvað lið sem getur notað mótlætið til að efla það þá er það liðið okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×