Erlent

Ákærður fyrir hryðjuverk

Faisal Shahzad hefur viðurkennt að hafa ætlað að sprengja sprengju við Times-torg í New York.fréttablaðið/AP
Faisal Shahzad hefur viðurkennt að hafa ætlað að sprengja sprengju við Times-torg í New York.fréttablaðið/AP

-AP- Faisal Shahzad, þrítugur bandarískur ríkisborgari sem fæddur er í Pakistan, hefur viðurkennt að hafa ætlað að sprengja sprengju í bifreið við Times-torg í New York á háannatíma um helgina.

Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að maðurinn verði ákærður fyrir hryðjuverkastarfsemi. Sprengjan olli litlu tjóni vegna galla í kveikjubúnaði.

Shazad var handtekinn á mánudagskvöld þar sem hann var kominn upp í flugvél áleiðis til Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Shazad hafði fullyrt við lögreglu að hann hafi verið einn að verki, en frá Pakistan bárust fréttir um að þar hafi verið handtekinn að minnsta kosti einn maður, Touseef að nafni, vegna gruns um aðild að árásinni á Times-torg.

„Miðað við það sem við vitum núna er ljóst að þetta var áform um hryðjuverk sem átti að drepa Bandaríkjamenn á einum fjölfarnasta stað landsins,“ sagði Holder. Á pakistanskri sjónvarpsstöð var fullyrt að Shahzad hafi nýlega heimsótt Pakistan og hafi þá dvalist í Karachi en einnig ferðast til Peshawar, borgar í norðvesturhluta landsins skammt frá landamærum Afganistans.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×