Erlent

Ummæli Browns skyggja á kappræðurnar

Breskir fjölmiðlar fjalla um fátt annað en ummæli forsætisráðherrans í gær þegar hann kallaði gamla ekkju fordómafulla.
Breskir fjölmiðlar fjalla um fátt annað en ummæli forsætisráðherrans í gær þegar hann kallaði gamla ekkju fordómafulla. Mynd/AP
Bresku þingkosningarnar fara fram á fimmtudaginn eftir viku og í kvöld munu leiðtogar þriggja stærstu stjórnmálaflokka landsins takast á í þriðju og síðustu sjónvarpkappræðunum. Fyrstu tvær kappræðurnar vöktu mikla athygli en nú virðist sem að ummæli Gordons Browns, forsætisráðherra Bretlands og formanns Verkmannaflokksins, muni skyggja á umræðurnar í kvöld því um fátt annað er talað í breskum fjölmiðlum.

Upptaka náðist af því í gær þegar Brown kallaði gamla ekkju fordæmafulla. Hann hefur nú beðið konuna afsökunar á orðum sínum en stjórnmálaskýrendur segja að með ummælunum hafi Brown orðið á gríðarleg mistök og að þau muni draga dilk á eftir sér.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum mælist Íhaldsflokkurinn með 33-36% fylgi, Frjálslyndir demókratar 26-31% og þá nýtur Verkamannaflokkurinn stuðnings 27-29% kjósenda. Ljóst er að lokasprettur kosningabaráttunnar verður spennandi.

Við þetta má bæta að BBC sýnir frá kappræðunum í kvöld og hefjast þær klukkan 19 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×