Innlent

Vilja beita viðskiptaþvingunum eða slíta stjórnmálasambandi við Ísrael

Þingmenn Framsóknarflokksins, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Hreyfingarinnar vilja beita Ísraela viðskiptaþvingunum eða slíta stjórnmálasambandi við Ísrael beri önnur úrræði ekki ávöxt vegna árásar þeirra á skipalest með hjálpargögn á leið til Gaza í gær. Utanríkisráðherra er falið að meta í samráði við aðrar þjóðar hvaða aðgerðum verði beitt. Þetta kom fram í máli Ögmundar Jónssonar, þingmanns VG, í utandagskrárumræðu um málið á Alþingi í dag.

Utanríkismálanefnd fundaði í hádeginu en komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu. Fulltrúa allra flokka fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn fordæma harðlega aðgerðir ísraelska hersins. „Það stríðir gegn réttlætiskennt manna að hindra með ofbeldi að hjálpargögn berist fólki í neyð. Meirihlutinn leggur áherslu að mannréttindasáttmálar, samþykktir Sameinuðu þjóðanna og að alþjóðalög verði að virt í hvívetna í hertekinni Palestínu á Gaza, á Vesturbakkanum að meðtalinni Austur-Jerúsalem," sagði Ögmundur þegar hann las upp samþykktina.

„Slit á stjórnmálasambandi við Ísrael kemur alvarlega til álita og er utanríkisráðherra falið að meta í samráði við aðrar þjóðar hvaða úrræðum verði beitt sem talinn er að verði áhrifaríkust til að knýja á um breytingar í samræði við alþjóðalög svo sem alþjóðlegri samstöðu um viðskiptaþvinganir eða slitum á stjórnmálasambandi við Ísrael beri önnur úrræði ekki ávöxt."

Þá ákvað meirihluti utanríkismálanefndar að fela utanríkisráðherra í samráði við nefndina að skipuleggja ferð til Gazasvæðisins og að Ísland standi að því að senda hjálpargögn til að aðstoða heimamenn og sýna þannig andstöðu við herkvína sem Ísraelsmenn hafi sett á Gaza í trássi við alþjóðalög.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×