Lífið

Hættir við Hobbitann eftir tveggja ára vinnu

Del Toro er hættur við að leikstýra myndunum tveimur um Hobbitann. Nordicphotos/Getty
Del Toro er hættur við að leikstýra myndunum tveimur um Hobbitann. Nordicphotos/Getty

Guillermo del Toro er hættur við að leikstýra tveimur myndum byggðum á skáldsögu Tolkien, Hobbitinn. Sagan gerist áður en atburðirnir í Hringadróttinssögu, The Lord of the Rings, áttu sér stað.

„Vegna þeirra tafa sem hafa orðið á framleiðslu Hobbitans stend ég frammi fyrir erfiðustu ákvörðun lífs míns," sagði del Toro. „Eftir að hafa helgað mig heimi Tolkiens í tvö ár verð ég því miður að yfirgefa þessar yndislegu kvikmyndir," sagði hann og bætti við að kvikmyndaverið MGM hefði ekki enn gefið grænt ljós á að tökur hefjist.

Del Toro mun halda áfram að skrifa handrit myndanna ásamt Peter Jackson, leikstjóra Hringadróttinssögu, eiginkonu hans og Philippu Boyens. Mexíkóski leikstjórinn samþykkti árið 2007 að eyða þremur árum í gerð Hobbitans en sá tími tvöfaldast ef hann heldur áfram með verkefnið og var hann ekki tilbúinn til að skuldbinda sig svo lengi.

Á meðal mynda sem Del Toro hefur leikstýrt eru Pan's Labyrinth, Blade II og Hellboy-myndirnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.