Lífið

Skírnir kominn

Skírnir
Skírnir

Út er komið vorhefti Skírnis og leggur sitt til umræðunnar um lærdóma af bankahruninu og breytingar á stjórnskipan og stjórnarskrá: þannig eru í heftinu tvær greinar sem tengjast hugmyndum um stjórnarskrá og hlutverk forsetaembættisins, skrifaðar frá ólíkum sjónarhornum.

Söguleg umfjöllun Svans Kristjánssonar um sambandsslitin 1944, þar sem hann ræðir ólíkan skilning ráðamanna á lýðræði og valdi sem enn setur svip sinn á stjórnmál samtímans, og hins vegar grein Guðna Th. Jóhannessonar um breytingar á forsetaembættinu í valdatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, sem hann nefnir Byltingin á Bessastöðum. Í Skírnismálum er svo að finna hugleiðingu Árna Björnssonar um sjálfa undirrót bankahrunsins.

Það má greina enduróm af helstu deilumálum okkar tíma í tveimur öðrum Skírnisgreinum. Kristín Loftsdóttir skrifar um kynþáttahyggju og fordóma á Íslandi, en Bryndís Björgvinsdóttir ræðir um átök um menningararf í samtímanum.

Þorsteinn Þorsteinsson bregst við umfjöllun Bergljótar Kristjánsdóttur um bók hans um Sigfús Daðason. Þorsteinn á jafnframt aðra grein um kvæðabálk Halldórs Laxness um unglinginn í skóginum og stöðu hans í ljóðlist samtímans. Ritdóma skrifa þau Gunnþórunn Guðmundsdóttir um Þórbergsbækur Péturs Gunnarssonar, og Björn Bjarnason um bók Árna Heimis Ingólfssonar um Jón Leifs.

Skírnir er 260 blaðsíður að stærð og markar vorheftið 2010 upphaf 184. árgangs. Ritstjóri er Halldór Guðmundsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.