Lífið

Ferðir Guðríðar sett upp um borð í Íslendingi

Þórunn Clausen tekst á við Guðríði Þorbjarnardóttur.
Mynd/Víkingaheimar
Þórunn Clausen tekst á við Guðríði Þorbjarnardóttur. Mynd/Víkingaheimar

Einleikurinn Ferðir Guðríðar kom upp í aðdraganda árþúsundamótanna á vegum Brynju Benediktsdóttur. Hefur sýningin verið á fjölunum víða: fór hún um Bandaríkin og Kanada og hefur verið leikin af fjölda leikkvenna gegnum árin, bæði á íslensku og ensku.

Nú gefst tækifæri til að sjá þennan áhrifamikla einleik um víðförlustu konu miðalda á norðurhveli heims því verkið verður annað kvöld frumsýnt í Víkingaheimum í Reykjanesbæ. Sviðið er ekki ódýrt: einleikurinn er settur á svið í Íslendingi, eftirgerð víkingaskips eftir Gunnar Marel Eggertsson.

Áhorfendur munu ganga um borð og fara í þetta ferðalag með Guðríði sem gengur um skipið og segir sögu sína sem hefst á ferðalagi frá Íslandi vestur um haf og endum á suðurgöngu Guðríðar, þar sem hún hittir páfann í Róm. Að leikhúsinu standa feðgarnir Einar Benediktsson og Pétur Einarsson og fleiri sem sáu fyrir sér að um borð í víkingaskipinu Íslendingi, sem

Víkingaheimar eru byggðir í kringum, væri upplagt að leika sögur norrænna manna. Víkingaheimar opnuðu fyrir tæpu ári í glæsilegu nýju húsnæði þar sem skipið Íslendingur, völundarsmíð, er miðpunkturinn en auk þess er þar vönduð sýning um landafundi Íslendinga og veitingahús.

Víkingaheimar eru á Víkingabraut 1 í Reykjanesbæ og þar er fyrirhugað að sýningar verði í framtíðinni. Þar með eykst um helming fjöldi leikhúsa sunnan Hafnarfjarðar en Graal í Grindavík er í fullu fjöri.

Ferðasaga Guðríðar eftir Brynju Benediktsdóttir er í nýrri uppfærslu Maríu Elling­sen. Þórunn Clausen leikur Guðríði, Snorri Freyr Hilmarsson hannar leikmynd, Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsir og Sveinbjörg María Ingibjargardóttir hannar búninga. Miðabókanir eru hér á midi.is. - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.