Erlent

Örfáir eru algerlega öruggir

Aðeins einn af hverjum fjörutíu ökumönnum getur ekið bíl og talað í farsíma á sama tíma án þess að það bitni á öryggi hans og ökuhæfileikum, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar.

Flestir ökumenn sem tóku þátt í rannsókninni, sem gerð var í ökuhermi, stofnuðu öðrum ökumönnum í hættu með því að aka undir umferðarhraða, auk þess sem þeir voru að meðaltali 20 prósentum lengur að hemla þegar óvænt atvik komu upp í ökuherminum.

„Þegar ég hugsa til þess mikla fjölda ökumanna sem talar í símann undir stýri hefði ég vonast til þess að hlutfall öruggra ökumanna væri hærra," segir Jason Watson, sálfræðiprófessor við Utah-háskóla í Bandaríkjunum.

„Við viljum líklega öll telja okkur trú um að við séum einmitt hluti af þessum hópi útvalinna, en staðreyndin er sú að líkurnar á því að einhver sé í þessum hópi eru jafn miklar og líkurnar á því að kasta upp fimm peningum og fá sömu hliðina upp á þeim öllum," segir Watson.- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×