Handbolti

Landsliðið horfði ekki aftur á lokamínútuna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í leiknum í gær.
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í leiknum í gær. Mynd/Leena Manhart
Guðmundur Guðmundsson ákvað að horfa ekki á upptöku af lokamínútu leiks Íslands og Austurríkis þegar landsliðið fundaði á hóteli sínu í morgun.

Eins og landsliðið gerir alltaf kom það saman á fundi í morgun og fór yfir leik gærkvöldsins. Ísland gerði í gær jafntefli við Austurríki á EM í handbolta þar sem heimamenn skoruðu þrjú mörk á síðustu 50 sekúndum leiksins og tryggðu sér þar með jafntefli, 37-37.

„Ég ákvað að við myndum ekki horfa á þetta. Við lögðum þetta bara til hliðar. Við ætluðum að horfa á þetta en ég ákvað að henda þessu til hliðar og taka frekar fyrir varnarleikinn okkar og hvernig Danir spila. Þar með höfum við á táknrænan hátt afgreitt þetta."

Liðið tók þó atvikið fyrir á fundi á hóteli liðsins seint í gærkvöldi.

„Okkur leið afskaplega illa og héldum fund þar sem við fórum yfir málin," sagði Guðmundur en Ísland missti einnig niður unninn leik gegn Serbíu á þriðjudagskvöldið.

„Við getum lært af þessum leikjum og þeir fara inn á reynslubankann en það er ekki til neins að vera að kvelja sig. Það hjálpar engum. Þetta leggjum við nú til hliðar og hættum að velta okkur upp úr þessu. Ég hef trú á liðinu og að okkur takist að fá fulla einbeitingu fyrir næsta leik. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við erum enn með frábært tækifæri í höndunum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×