Erlent

Kennir flestum öðrum um

Alan Greenspan segir kreppuna ekki sér að kenna. fréttablaðið/AP
Alan Greenspan segir kreppuna ekki sér að kenna. fréttablaðið/AP
Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir að lágvaxtastefna bankans hafi ekki hvatt lánastofnanir til að veita áhættusöm lán.

Í yfirheyrslum hjá bandarískri þingnefnd rakti hann fjölmörg mistök sem aðrir gerðu og leiddu til fjármálahrunsins, en taldi sjálfan sig og Seðlabankann ekki bera þar neina sök.

Meðal annars þurfti hann að svara gagnrýnendum sem sögðu Seðlabankann hafa brugðist með því að setja ekki reglur um áhættusöm lán til fólks sem hafði ekki efni á að greiða afborganir af skuldunum.

„Hvers vegna í ósköpunum gerðirðu ekkert til að halda í skefjum ósvífinni og blekkjandi undirmálslánastarfsemi?“ spurði Phil Anglides, formaður rannsóknarnefndarinnar. „Þú hefðir getað það og þú hefðir átt að gera það, en gerðir það ekki.“

Greenspan benti á ýmsar ráðstafanir, sem Seðlabankinn greip til, en Anglides fullyrti að þær aðgerðir hefðu aðeins náð til eins prósents af undirmálslánamarkaðnum, sem grófu undan fjármálaheiminum með þeim afleiðingum að kreppan fór af stað.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×