Erlent

Leggja grunn að fækkun kjarnavopna

Barack Obama og Dmitri Medvedev harla ánægðir með dagsverkið. nordicphotos/AFP
Barack Obama og Dmitri Medvedev harla ánægðir með dagsverkið. nordicphotos/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir nýja afvopnunarsamninginn leggja grunn að enn frekari fækkun kjarnorkuvopna á næstu árum. Hann undirritaði samninginn í Tékklandi í gær ásamt Dimitri Medvedev Rússlandsforseta. Nærri ár er síðan samningaviðræðurnar hófust, og hefur á ýmsu gengið þennan tíma.

Upphaflega átti nýi samningurinn að taka gildi ekki síðar en í desember, þegar hinn tuttugu ára gamli START-samningur rann út. Þann samning höfðu Ronald Reagan Bandaríkjaforseti og Mikhaíl Gorbatsjov Sovétleiðtogi undirritað árið 1991, skömmu fyrir fall Sovétríkjanna.

Samningurinn felur það í sér að langdrægum kjarnorkuvopnum Rússa og Bandaríkjanna er fækkað um þriðjung frá því sem nú er. Hann tekur þó ekki gildi fyrr en þing beggja þjóða hafa staðfest hann.

Báðir voru þeir Obama og Medvedev ánægðir með þennan síðbúna árangur og bjartsýnir á framhaldið. Enn eru þó óleyst deilumál milli ríkjanna, ekki síst varðandi áform Bandaríkjanna um að koma sér upp eldflaugavörnum í Evrópu þrátt fyrir að Rússar líti á það sem ógn við sig.

Síðastliðið haust sagði Obama að Bandaríkjamenn væru hættir við áform um að koma sér upp eldflaugavarnarstöðvum í Póllandi og Tékklandi, en Bandaríkin hafa þó enn áform um að koma sér upp endurbættum eldflaugavörnum í Evrópu, meðal annars með aðstöðu í Rúmeníu.

Rússar hafa hótað því að segja upp þessum nýja samningi ef þeir komast að þeirri niðurstöðu að þeim stafi hætta af þessum áformum. Obama sagði þeim þó engan veginn beint gegn Rússum og Medvedev sagðist sannfærður um að málamiðlun takist um málið.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×