Innlent

Fjármálaráðherra segir aðgerðir ríkistjórnarinnar ekki vera bjarnargreiða

Fjármálaráðherra aftekur að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til aðstoðar skuldsettum heimilum hafi verið bjarnargreiði, þrátt fyrir að þær hafi fjölgað heimilum með neikvæða eiginfjárstöðu.

Viðskiptaráðherra segir eiginfjárstöðuna skipta minna máli en að fólk nái að standa í skilum.

Eins og greint var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær hafa hátt í þúsund heimili lent í neikvæðri eiginfjárstöðu eftir að hafa nýtt sér úrræði ríkisstjórnarinnar til hjálpar skuldsettum heimilum. Það skýrist af því að sum úrræðin létta greiðslubyrði tímabundið, en fresta greiðslum svo heildarkostnaðurinn verður meiri yfir lánstímann.

Um fjögur af hverjum tíu heimilum í landinu skulda meira en þau eiga í húsnæði sínu, en samkvæmt mati Seðlabanka Íslands er líklegt að staðan muni áfram versna áður en hún batnar.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir frumvörp um viðbótaraðgerðir í þessum efnum liggja fyrir þinginu.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir það skipta heimili sáralitlu máli að vera í neikvæðri eiginfjárstöðu tímabundið svo framarlega sem þau séu ekki að reyna að selja eignina og standi í skilum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×