Skoðun

Mætum öll á kjörstað!

María Ágústsdóttir skrifar

Kæri Íslendingur. Hvort sem þér finnst Stjórnlagaþing 2011 nauðsynlegt eður ei langar mig að hvetja þig til að nýta lýðræðislegan rétt þinn til að kjósa á laugardaginn. Þjóðkjörnir fulltrúar okkar hafa veitt þjóðinni sjálfri umboð til að hafa áhrif á þá endurskoðun stjórnarskrárinnar sem staðið hefur fyrir dyrum lengi. Þitt atkvæði skiptir máli svo að tillögur stjórnlagaþingsins verði marktækari.

Við erum mörg sem teljum ekki þörf á að umbylta algjörlega þeim grunni sem stjórnskipun lýðveldisins Íslands byggir á. Hins vegar má ýmislegt laga.

Eitt af því tel ég vera að það sé ekki ævistarf að sitja á Alþingi eða vera í ríkisstjórn. Lýðræðislegar umbætur krefjast þess að fulltrúar okkar á Alþingi verði aftur virkir í atvinnulífinu t.d. að 2 kjörtímabilum liðnum. Við þurfum líka að huga að umhverfisvernd og arði af auðlindum Íslands og mikilvægt er að standa vörð um rétt þjóðarinnar til að hafa áhrif á hugsanlegt fullveldisframsal.

Margt fleira mætti nefna, en ég minni á að meðal þeirra 8 atriða sem lög um stjórnlagaþing (nr. 90/2010) kveða á um að séu tekin fyrir er ekki tengsl ríkis og kirkju. Það mál þarf að ræða á öðrum vettvangi, enda eru verkefni stjórnlagaþingsins næg.






Skoðun

Sjá meira


×