Erlent

Baráttusöngur bannaður í Suður-Afríku

Óli Tynes skrifar
Eugene Terreblanche.
Eugene Terreblanche.

Sextíu og átta ára gamall hvítur bóndi var myrtur í rúmi sínu síðastliðinn laugardag. Eugene Terreblanche var raunar meira en bóndi hann var einn af leiðtogum samtakra hvítra manna sem hafa ekki sætt sig við valdatöku svartra.

Morðingjarnir voru tveir af verkamönnum á búgarði hans, tuttugu og átta og fimmtán ára að aldri.

Þeir halda því fram að morðið hafi verið framið vegna vangoldinna launa. Margir hvítir menn vilja hinsvegar rekja það til baráttusöngs sem leiðtogi ungliðahreyfingar Afríska þjóðarráðsins hefur endurvakið og sungið mikið undanfarnar vikur.

Í laginu er talað um að drepa hvíta bændur. Dómstóll í Suður-Afríku hefur úrskurðað að það sé haturssöngur og bannað það.

Afríska þjóðarráðið hefur mótmælt banninu og ætlar að fara með málið fyrir æðri dómstóla. Ráðið segir þennan baráttusöng vera hluta af menningararfi sínum frá aðskilnaðartímabilinu.

Engu að síður hefur ungliðanum verið skipað að hætta að syngja þartil niðurstaða þeirra dómstóla liggur fyrir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×