Lífið

Carmina með tónleika í Landakoti um helgina

Kammerkórinn Carmina er með þéttskipaða dagskrá og gefur brátt út nýjan disk með íslenskri tónlist úr Hymnodíu-handritinu.
Kammerkórinn Carmina er með þéttskipaða dagskrá og gefur brátt út nýjan disk með íslenskri tónlist úr Hymnodíu-handritinu.
Kammerkórinn Carmina leggur nú lokahönd á efnisskrá sem hann flytur í Kristskirkju í Landakoti um helgina. Kórinn setti Árni Heimir Ingólfsson á stofn og hefur Carmina uppskorið mikið hrós hjá vönduðum erlendum tónlistartímaritum fyrir flutning sinn á tónlist fyrri alda en á því sviði starfar kórinn fyrst og fremst. Þannig voru menn á breska tónlistarblaðinu Gramophone yfir sig hrifnir af geisladisk kórsins, Melódíu.

Kammerkórinn Carmina var stofnaður árið 2004 og er eini tónlistarhópur sinnar tegundar á Íslandi sem sérhæfir sig í flutningi á tónlist endurreisnartímans. Meðlimir hópsins koma víða að, eru ýmist búsettir á Íslandi, í Lundúnum eða Kaupmannahöfn. Allir eru þeir með söngmenntun að baki og starfa bæði sjálfstætt sem tónlistarmenn og með öðrum kórum. Á undanförnum árum hefur Carmina einbeitt sér að því að flytja og hljóðrita tónlist úr íslenskum nótnahandritum sem lengi höfðu legið í þagnargildi, en auk þess hefur hópurinn frumflutt á Íslandi fjölda meistaraverka frá 15. og 16. öld. Á efnisskránni í Kristskirkju er til að mynda að finna þrjú tónverk sem ekki hafa heyrst áður hér á landi.

Árni segir kórinn hafa það hlutverk í tónlistarlífi landsins að syngja tónlist sem annars ratar sjaldan á tónleikaprógrömm: „Ef litið er yfir tónlistarsviðið má segja að tónlistarsagan byrji með Bach í kringum aldamótin 1700 og nái til dagsins í dag, sem gerir um þrjú hundruð ár. Okkar áhersla spannar ríflega tvær aldir þarna á undan, og við reynum markvisst að láta okkar efnisskrár ekki skarast við það sem aðrir hérlendir kórar og sönghópar fást við. Við teljum einfaldlega mikilvægt að Íslendingar fái tækifæri til að upplifa þá ómótstæðilegu töfra sem tónlist endurreisnartímans býr yfir. Þetta er eitt af gullaldarskeiðum listasögunnar og það gildir jafnt um tónlistina eins og aðrar listgreinar."

Á tónleikunum í Kristskirkju á laugardag og sunnudag eru nokkrar helstu perlur endurreisnartónlistarinnar og eiga verkin það flest sameiginlegt að vera samin Maríu guðsmóður til dýrðar. Meðal þeirra má nefna hið víðfræga Ave Maria eftir Josquin des Prez, sem hefur verið kallað „Mona Lisa endurreisnartónlistarinnar". Einnig eru á efnisskránni Maríusöngvar eftir Morales, Victoria og Dunstable, auk tveggja söngva úr íslenskum handritum frá 16. og 17. öld. Þá verða flutt tvö magnþrungin verk við Harmljóð Jeremía, eftir Thomas Tallis og Orlando di Lasso, þar sem leikið er á margvíslega strengi tilfinninganna.

Það er fjölmargt spennandi á döfinni hjá Carminu og ljóst að hróður hópsins hefur borist víða. Fyrir utan tónleikana á Listahátíð mun kórinn koma fram á tónlistarhátíðinni Við Djúpið á Ísafirði í júní, og á hátíðinni Wege Durch das Land í Þýskalandi í júlí. Þar syngur Carmina í hinu sögufræga Dalheim-klaustri í Lichtenau, þar sem Nikulás Bergþórsson ábóti á Munkaþverá gisti á leið sinni til Rómar um miðja 12. öld. Einnig er væntanlegur á markað nýr hljómdiskur þar sem Carmina flytur lög úr íslenska handritinu Hymnodia sacra, sem ritað var árið 1742.

Stjórnandi á tónleikunum í Kristskirkju er Árni Heimir en þeir eru kl. 16 báða dagana og er miðasala á midi.is og í miðasölu Listahátíðar á Bernhöftstorfunni. - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.