Lífið

Kristján lék á móti aðalleikurum Forbrydelsen í Macbeth

Kristján lék á móti Nicolas Bro og Sofie Gråbøl úr sjónvarpsþáttunum Forbrydelsen í leikritinu Macbeth.
Kristján lék á móti Nicolas Bro og Sofie Gråbøl úr sjónvarpsþáttunum Forbrydelsen í leikritinu Macbeth.

„Það var gaman fyrir mig að kljást við svona fólk. Þetta er fólk sem leggur rosalega mikið í það sem það er að gera og er rosalega ötult," segir Kristján Ingimarsson.

Hann lék nýverið í leikriti Shakespeare, Macbeth, á móti þeim Nicolas Bro og Sofie Gråbøl úr sjónvarpsþáttunum vinsælu Forbrydelsen. Fóru þau tvö með hlutverk herra og frú Macbeth og stóðu sig með mikilli prýði að sögn Kristjáns. Sjálfur lék hann hin ýmsu hlutverk í sýningunni, þar á meðal nornir og morðingja. Atriðin með nornunum fólu í sér nýstárlega hreyfilist og var það Kristján sem samdi þau.

Rúmlega þrjátíu sýningar voru haldnar í leikhúsinu Gasværket í Kaupmannahöfn fyrir fullu húsi. Leikhúsið er gömul gasstöð sem rúmar 800 manns og er sérlega skemmtilegur vinnustaður að mati Kristjáns.

„Húsið að innan er ferlega hrátt. Þetta er hringlaga tankur sem er hlaðinn úr grjóti og gluggarnir eru einnig hringlaga og mjög flottir," segir hann. „Þeir notfærðu sér þetta og gerðu einfalda sviðsmynd. Síðan var okkar að reyna að fylla út í þetta rými."

Nicolas Bro nýtti áhuga sinn á ofurhetjum til að koma sér í gírinn fyrir hlutverk sitt sem hinn blóðþyrsti Macbeth.
Kristján segir að Nicolas hafi gríðarlegan áhuga á teiknimyndahetjum á borð við Spider-Man og Superman. Hann safni teiknimyndablöðum af miklum þrótti og hafi nýtt áhuga sinn á ofurhetjum til að koma sér í gírinn fyrir hlutverk sitt sem hinn blóðþyrsti Macbeth.

Kristján, sem hefur starfað mikið í Danmörku, leikstýrði sinni eigin sýningu áður en hann lék í Macbeth. Hún hét Big Wheel Café. Þar bauð hann gestaleikurum öðru hvoru að stíga á svið. Ólafía Hrönn Jónsdóttir var ein þeirra og eitt kvöldið mætti Nicolas Bro. „Hann kom inn á kaffihúsið sem Macbeth og tók innleikssenu úr leikritinu. Þetta var áður en Macbeth var frumsýnt og þannig kynntist ég honum fyrst," segir Kristján og greinilegt að Nicolas er maður sem fer sínar eigin leiðir.

Næsta hlutverk Kristjáns verður í verkinu Af ástum manns og hrærivélar sem verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 20. maí og er hluti af Listahátíð í Reykjavík. Þar leikur hann einmitt á móti Ólafíu Hrönn. Þau sömdu einnig leikritið ásamt þeim Ilmi Stefánsdóttur og Vali Frey Einarssyni. „Okkur hefur tekist að gera alveg kolbrjálaða og stórskemmtilega sýningu," segir Kristján og hlakkar mikið til.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.