Erlent

Enn ein árásin í kínverskum leikskólum

Maður vopnaður hnífi réðst inn í leikskóla í Kína í nótt stakk 6 börn tilbana. Myndin er úr safni. Mynd/AP
Maður vopnaður hnífi réðst inn í leikskóla í Kína í nótt stakk 6 börn tilbana. Myndin er úr safni. Mynd/AP
Karlmaður réðst inn í leikskóla í Kína í nótt og myrti sex börn áður en hann tók eigið líf. Kínverjar eru slegnir yfir endurteknum árásum á leikskóla.

Maðurinn réðst inn í leikskóla í borginni Hanzhong sem er í miðju Kína og stakk að minnsta kosti sex leikskólabörn og einn starfsmann til bana. Manninum tókst einnig að særa 20 önnur börn áður en hann framdi sjálfsmorð. Ekki er vitað hvað manninum gekk til en þetta er í fjórða sinn á tæpum tveimur vikum þar sem ráðist er á kínversk leikskólabörn. Fyrir hálfum mánuði var 42 ára gamall karlmaður tekinn af lífi fyrir að myrða átta leikskólabörn í mars og um helgina myrti maður átta manns með hnífi, þar á meðal dóttur hans, móður og nágranna.

Árásirnar hafa valdið miklum óhug í Kína. Undanfarin sex ár hafa árásir sem þessar færst í vöxt í landinu og hafa flestir árásarmannanna átt við geðræn vandamál að stríða eða talið sig eiga einhverra harma að hefna. Kínversk yfirvöld hafa fyrirskipað skólastjórnendum að auka öryggisgæslu sína til að tryggja öryggi barna og starfsmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×