Innlent

Afnám vatnalaga afgreitt úr nefnd

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, er formaður iðnaðarnefndar.
Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, er formaður iðnaðarnefndar. Mynd/Pjetur
Frumvarp iðnaðarráðherra um afnám vatnalaga var afgreitt úr iðnaðarnefnd Alþingis í morgun. Meirihluti iðnaðarnefndar samþykkti frumvarpið óbreytt með atkvæðum Samfylkingarinnar og Vinstri-hreyfingarinnar græns framboðs og með fyrirvara fulltrúa Hreyfingarinnar en þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru á móti.

Í frumvarpinu er lagt til að vatnalögin verði felld úr gildi en miklar deilur urðu um efni þess á þingi árið 2006 einkum þá breytingu á eignarréttarákvæði laganna að landeigendur skyldu öðlast eignarrétt á vatnsauðlindum í eignarlöndum þeirra. Þar var vikið í grundvallaratriðum frá því fyrirkomulagi sem verið hafði í eldri vatnalögum frá 1923 þar sem landeigendum var tryggður réttur til umráða og hagnýtingar á vatni en ekki eignarréttur.   

Í áliti meirihluta nefndarinnar segir:  „Nefndin tekur undir þau sjónarmið að með því að afnema gildistöku laganna sé verið að eyða þeirri réttaróvissu sem uppi hefur verið síðastliðin ár. Með afnámi laganna sendir löggjafinn þau skýru skilaboð að ekki standi til að lögin nr. 20/2006 taki gildi heldur muni nýtt frumvarp til heildstæðra vatnalaga taka við af lögum nr. 15/1923.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×