Erlent

Fólk brennt til bana í grískum óeirðum

Óli Tynes skrifar

Bensínsprengjur flugu þétt innan um grjóthnullunga og kantsteina í Aþenu í dag. Logandi sprengjunum var ekki aðeins kastað í lögregluna heldur einnig inn í stofnanir og fyrirtæki.

Einni slíkri var kastað inn í banka þar sem tuttugu manns lokuðust inni. Þrír létu lífið og fleiri hlutu brunasár.

Hinir látnu munu hafa verið tvær konur og einn karlmaður, en ekki er vitað hvort þau voru bankastarfsmenn eða viðskiptavinir.

Lögreglan svaraði fyrir sig með hvellsprengjum, táragasi, vatnsfallbyssum og kylfum.

Gríska verkalýðshreyfingin boðaði til sólarhrings allsherjarverkfalls í dag til þess að mótmæla stórfelldum niðurskurði, launalækkunum og skattahækkunum.

Stjórnvöld urðu að fallast á þær aðgerðir til þess að fá lán frá Evrópusambandsríkjum og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Ellegar hefði landið orðið gjaldþrota.

Verkfallið og óeirðirnar verða tæpast til þess að bæta stöðuna í efnahagsmálum.

Grikkland er lamað vegna verkfallsins og því sem næst einangrað. Flug liggur niðri sem og lestar- ferjusamgöngur. Verkfallið hefur einnig haft áhrif á stofnanir eins og sjúkrahús og skóla.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×