Lífið

Eurovision: Allt var reynt til að fá Ítalíu aftur

Tinni Sveinsson skrifar
Eyfi og Stebbi sungu Nínu á sviðinu í Róm, síðast þegar Ítalir héldu keppnina.
Eyfi og Stebbi sungu Nínu á sviðinu í Róm, síðast þegar Ítalir héldu keppnina.

Framkvæmdastjórn Eurovision tilkynnti í fyrra að allt yrði reynt til að fá Ítalíu aftur til að taka þátt í keppninni í ár. Svante Stockselius, umsjónarmaður keppninnar, staðfesti á blaðamannafundi á þriðjudag að þetta hefði verið gert en Ítalir hefðu ekki haggast.

„Við settumst niður með fólki frá RAI, ítalska ríkisútvarpinu. Við höfum reyndar gert það árlega síðustu ár en það er alltaf mismunandi fólk sem talar við okkur. Þeir vildu ekki vera með en ég er ekki frá því að við séum nær markmiðinu en áður."

Ítalir tóku þátt í Eurovision á árunum 1956 til 1997 og voru meðal sjö þjóða sem voru í fyrstu keppninni. Þeir sögðu sig úr keppninni án útskýringa árið 1997 og hafa ekki tekið þátt síðan. Ítalir eru reyndar nokkuð erfiðir hvað þetta varðar því þeir höfðu þrisvar sinnum áður sagt sig úr keppninni. Fyrst 1981 í tvö ár en þá sögðu þeir áhugann heimafyrir of lítinn. Síðan 1986 og loks frá 1994 til 1996.

Umsjónarmenn keppninnar hafa staðfest að ef Ítalía myndi taka aftur þátt þá fengi landið sömu meðferð og stóru löndin fjögur, Bretland, Spánn, Þýskaland og Frakkland. Ítalía myndi þannig ekki þurfa að taka þátt í undankeppni heldur alltaf vera með í úrslitakeppninni sjálfri. Stóru löndin yrðu þá fimm.

Ítalir hafa tvisvar sinnum unnið Eurovision. Fyrst árið 1965 með laginu Non ho l'età, sem Ellý Vilhjálms flutti seinna undir nafninu Heyr mína bæn. Myndband af flutningnum má sjá hér.

Ítalir unnu aftur árið 1990 með laginu Insieme: 1992. Myndband af flutningnum má sjá hér.

Hér er Facebook-síða sett upp af aðdáendum sem vilja fá Ítali aftur í Eurovision.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.