Handbolti

Arnór: Eigum lausn við öllu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Arnór í leiknum gegn Serbum.
Arnór í leiknum gegn Serbum. Mynd/Leena Manhart

Arnór Atlason segir enga ástæðu til að hræðast austurríska landsliðið fyrir leik liðanna í kvöld.

„Það er að vísu svolítið erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig þeir spila. Þeir spila annars vegar 6-0 vörn og svo 5+1 þar sem þeir koma út á vinstri væng andstæðinginn - sem sagt á mig. En ég á frekar von á því að þeir fari út í Óla [Ólaf Stefánsson],“ sagði Arnór við Vísi.

„En við erum með það góða taktík og sóknarleik að við eigum lausn við öllu. Það er ekkert sem ætti að hræða okkur mikið.“

Hann segir þó afar mikilvægt að bera virðingu fyrir austurríska liðinu og alls ekki að vanmeta það.

„Austurríkismenn hafa ekki tapað mörgum leikjum í undirbúningi sínum fyrir mótið og þeir hafa ekki heldur tapað stórt. Þeir hafa spilað á móti hörkuþjóðum og staðið sig mjög vel eins og sást best gegn Dönum á mánudaginn. En það má ekki gleyma því að við eigum líka hellng inni.“

„Ég hef engar áhyggjur af vanmati. Það er ekki hægt að vanmeta þá. Ef við ætlum að fara að vanmeta þá á þeirra heimavelli þá lendum við bara í tómu bulli og verðum á leiðinni heim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×