Lífið

Lagt í Hellisbúatúr um landið

Hellis­búaspaug Jóhannesar  Hauks fer brátt um landið.
Hellis­búaspaug Jóhannesar Hauks fer brátt um landið.
Leikferðir um landið voru í eina tíð fastur passi í leikhúslífi þjóðarinnar. Lagt var úr bænum um leið og vegir voru færir og leikið stundum í hverju einasta samkomuhúsi sem tók leikmynd og var með bærilegum ljósabúnaði.

En nú er það liðin tíð. Því kemur gleðilega á óvart að í gær hófst miðasala á leikför um landið með gamanleikinn Hellisbúann sem verið hefur á fjölum Óperunnar í vetur. Hafa þá um 20 þúsund séð sýninguna sunnan og norðan heiða. Rúnar Freyr Gíslason leikstýrði og Sigurjón Kjartansson sá um að þýða og staðfæra.

Vegna fjölda áskorana hefur nú verið ákveðið að fara í túr um landið. Hellisbúinn verður á ferðinni 5.-19. júní og heimsækir sex bæjarfélög.

Dagskráin er svona:

5. júní: Bíóhöllin, Akranesi

10. júní: Klif, Ólafsvík

11. júní: Félagsheimilið, Búðardal

12. júní: Edinborgarhúsið, Ísafirði

18. júní: Valaskjálf, Egilsstöðum

19. júní: Valhöll, Eskifirði

Aðeins er um eina sýningu að ræða í hverju bæ og því takmarkað magn miða í boði. Miðasalan er á Miði.is.

Jóhannes Haukur Jóhannesson er Hellisbúinn: Hann segir þá verða tvo í för og þetta sé allt í lágmarkinu.

Vel komi til greina að bæta við stöðum ef áhugi sé á: því farið þið ekki til Eyja, spyrjum við.

„Það hefur komið til tals," segir hann, „Þá er það bíóið eða íþróttahöllin."

Eða brekkan á þjóðhátíð, segjum við. - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.